Ebólufaraldur yfirstaðinn í ágúst

Liðsmenn Lækna án landamæra að störfum í Líberíu.
Liðsmenn Lækna án landamæra að störfum í Líberíu. AFP

Ebólufaraldurinn í Vestur-Afríku verður yfirstaðinn í ágúst, að því er yfirmaður málaflokksins hjá Sameinuðu þjóðunum segir í viðtali við BBC. Hann viðurkennir að Sameinuðu þjóðirnar hafi gert mistök við að takast á við faraldurinn. Stofnunin hafi stundum verið full hroka. Nú er ár síðan að faraldurinn braust út af fullum þunga. Yfir 10 þúsund manns hafa látið lífið á þeim tíma.

Mannúðarsamtökin Læknar án landamæra segja að alþjóðasamfélagið hafi brugðist og að merki um að faraldur væri í uppsiglingu hefðu verið hunsuð. Samtökin segja að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) beri m.a. ábyrgð í málinu. Flestir hafa látist í þremur löndum: Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne.

Talið er að sá fyrsti sem lést úr ebólu í þessum faraldri hafi verið ungur drengur í Gíneu. Hann lést í desember árið 2013. Þrír mánuðir liðu áður en WHO lýsti yfir faraldri. Fimm mánuðir til viðbótar liðu áður en WHO lýsti yfir neyðarástandi. Þá höfðu yfir þúsund manns látist úr ebólu.

Enn er fólk að smitast og deyja úr ebólu í Vestur-Afríku. Þegar enginn hefur smitast í sex vikur verður formlega tilkynnt að faraldurinn sé yfirstaðinn.

Frétt BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert