Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, hefur varað kanslara Þýskalands, Angelu Merkel, við því að Grikkir geti ekki greitt skuldir sínar nema með því að fá áfram fjárhagslega aðstoð frá Evrópusambandinu. Þetta kemur fram í Financial Times í dag.
Samkvæmt AFP hefur FT séð afrit af bréfi sem Tsipras sendi Merkel þann 15. mars þar sem hann varar við því að ríkisstjórn hans verði neydd til þess að velja á milli þess að greiða niður lán, sem fengin voru hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í upphafi, eða að halda áfram að setja fé í velferðarkerfið.
Tsipras og Merkel munu hittast á fundi í Berlín í dag. Gríski leiðtoginn hefur sakað þráfylgni Merkel, um harðan niðurskurð stjórnvalda í Grikklandi, bera ábyrgð á fátækt og atvinnuleysi í Grikklandi.
Merkel segir hins vegar að ef Grikkir vilji meira fé að láni, en Þjóðverjar lánuðu stærstan hluta þess fjár sem ríki ESB hafa látið Grikki fá, þá verði landið að bíta í það súra epli að draga úr eyðslu.
Lánardrottnar Grikklands samþykktu í febrúar að framlengja 240 milljarða evra lánasamningi við Grikkland í fjóra mánuði gegn loforði um að landið myndi grípa til frekari niðurskurðaraðgerða.
Flokkur Tsipras, Syriza, Bandalag róttækra vinstriflokka, komst til valda í þingkosningum í Grikklandi 25. janúar eftir að hafa lofað að knýja lánardrottnana til að breyta skilmálum aðstoðarinnar og afskrifa stóran hluta lánanna. Lánardrottnarnir – Evrópusambandið, Evrópski seðlabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn – höfnuðu þessu en samþykktu að framlengja aðstoðina um fjóra mánuði til að halda viðræðunum áfram á grundvelli málamiðlunartillagna sem gríska stjórnin lagði fram í kjölfarið.