Íhaldsmaður af guðs náð

Hann er uppáhald Teboðshreyfingarinnar, óhræddur við að taka slaginn við andstæðinga og samflokksmenn, og átti stóran þátt í stöðvun hins opinbera síðla árs 2013, þegar hann barðist hatrammlega gegn sjúkratryggingaumbótum Barack Obama Bandaríkjaforseta.

Hann heitir Ted Cruz og hefur tilkynnt um framboð sitt til forseta 2016.

Cruz er 44 ára gamall lögmaður, stundaði nám við Harvard og Princeton og tók sæti í öldungadeild bandaríska þingsins fyrir Texas árið 2012. Gárungarnir segja að í kosningabaráttunni muni hann reyna að höfða til fólks sem einarður íhaldsmaður, óhræddur við að skora á hólm bæði demókrata og repúblikana.

Samkvæmt Washington Post er þess að vænta að efst á stefnuskrá Cruz verði að hnekkja sjúkratryggingafrumvarpi forsetans og andstaða við hjónabönd samkynhneigðra, svo eitthvað sé nefnt. Hann hefur verið duglegur við að stíga í vænginn við evangelísku kirkjuna og aðrar íhaldssamar hreyfingar, í viðleitni til að mynda bandalag til mótvægis við ráðandi repúblikana í Washington.

Cruz býr í Houston með eiginkonu sinni Heidi, sem er framkvæmdastjóri hjá Goldman Sachs, og tveimur dætrum. Hann starfaði m.a. sem lögmaður fyrir Hvíta hús George W. Bush og var hluti teymisins sem vann fyrir forsetann í kosningahneykslinu í Flórída árið 2000.

Cruz er sonur bandarískrar móður og föður sem flutti frá Kúbu til Bandaríkjanna árið 1957, en sjálfur fæddist hann í Kanada. Gera má ráð fyrir að nokkuð verði gert úr fæðingarlandi öldungadeildarþingmannsins í kosningabaráttunni, en lögmenn beggja vegna borðsins hafa sagt að þar sem móðir Cruz hafi verið bandarískur ríkisborgari sé hann sannarlega Bandaríkjamaður og kjörgengur sem slíkur.

Trúir ekki á loftslagsbreytingar

Þrátt fyrir kúbverskan uppruna sinn er Cruz síður en svo bandamaður innflytjenda og hefur m.a. gagnrýnt leiðtoga repúblikana fyrir máttleysi gegn tilskipunum forsetans um málefni innflytjenda.

Á liðnum vikum hefur Cruz m.a. undirritað bréf þar sem írönsk stjórnvöld eru vöruð gegn samstarfi við Obama í kjarnorkumálum og þá hefur hann sett sig upp á móti útnefningu Lorettu Lynch sem dómsmálaráðherra.

Cruz hefur verið harður gagnrýnandi forsetans í utanríkismálum og hefur m.a. sagt að hann myndi íhuga að senda hermenn til þátttöku í baráttunni gegn Ríki íslam.

Hann trúir ekki á loftslagsbreytingar og segir gögn ekki styðja málflutning þeirra sem eru á öndverðum meiði. Hann fer fyrir þeirri nefnd öldungadeildarinnar sem fjallar um málefni NASA og hefur sagt að stofnunin ætti að einbeita sér að geimrannsóknum frekar en þeim er varða málefni jarðarinnar.

Cruz hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þessa afstöðu sína en demókratinn Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, er meðal þeirra sem telja Cruz hreinlega óhæfan til að bjóða sig fram til forseta af þessum sökum.

Skoðanakannanir benda til þess að Cruz eigi langt í land, ætli hann sér að hljóta útnefninguna sem forsetaefni repúblikana, en samkvæmt nýlegri könnun CNN nýtur hann stuðnings 4% repúblikana og óháðra sem hallast að repúblikanaflokknum.

Aðrir líklegir frambjóðendur úr röðum repúblikana eru m.a. Scott Walker, ríkisstjóri Wisconsin, Jeb Bush, fyrrverandi ríkisstjóri Flórída, öldungadeildarþingmaðurinn Rand Paul, Bobby Jindal, ríkisstjóri Louisiana, fyrrverandi öldungardeilarþingmaðurinn Rick Santorum og Rick Perry, fyrrverandi ríkisstjóri Texas.

Ted Cruz er öldungadeildarþingmaður fyrir Texas og íhaldsmaður af guðs …
Ted Cruz er öldungadeildarþingmaður fyrir Texas og íhaldsmaður af guðs náð. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert