Tók brosandi á móti Tsipras

Forsætisráðherra Grikklands, Alexis Tsipras, mætti til Þýskalands í dag en fyrir fundinn var búist við því að hann myndi kynna aðgerðaráætlun grísku ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að ná valdi á fjármálavanda landsins. Áður hefur hann varað við því að Grikkland geti ekki staðið við fyrri skuldbindingar gagnvart lánveitendum án frekari fjárhagsaðstoðar frá Evrópusambandinu. Þrátt fyrir mikla spennu á milli Grikklands og Þýskalands tók Angela Merkel, kanslari Þýskalands, brosandi á móti Tsipras í Berlín.

Talsmaður Merkel, Steffen Seibert,  sagði í samtali við fjölmiðla að hann vonaðist eftir því að heimsókn Tsipras yrði skref í rétta átt. Sagði hann fund leiðtoganna tveggja ekki snúast um nýjan samning varðandi skuldastöðu Grikklands þar sem það væri ekki vandamál tveggja ríkja heldur vandamál evrusvæðisins í heild.

Fundinum var ætlað að byggja upp traust á milli ríkjanna eftir hörð orðaskipti að undanförnu á milli ráðamanna ríkjanna tveggja. Seibert sagði þó við fjölmiðla að „auðvitað“ yrði farið inn á áætlanir Tsipras um endurbætur í Grikklandi.

„Þetta er mögulega síðasta tækifærið sem Tsipras hefur til þess að sannfæra Merkel um að hann muni gera það sem þurfi til þess að halda Grikklandi innan evrusvæðisins,“ sagði skýrandinn Christian Schulz hjá Berenberg bankanum.

Greiðsla lána eða fjármagn til samfélagsins

Í bréfi Tsipras varaði hann Merkel við að án hjálpar ESB yrðu stjórnvöld í Grikklandi að velja á milli þess að greiða lánin eða að viðhalda nauðsynlegum fjárútlátum til samfélagsins. Bréfið barst Merkel hinn 15. mars og hefur talsmaður grísku ríkisstjórnar staðfest það.

„Þetta er ekki hótun. Þetta er raunveruleikinn,“ sagði Sakellaridis við Mega TV og bætti hann við að Francois Hollande Frakklandsforseti og Jean Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, hefðu fengið sambærilegt bréf.

Hann segir bréfið snúast um hvorki meira né minna en það sem fram hefur komið í máli grísku ríkisstjórnarinnar á undanförnum vikum um að lausafé landsins sé lítið og að pólitískt frumkvæði verði að vera tekið.

Tsipras hitti þingmenn stjórnarandstöðunnar í Þýskalandi á fimmtudag og hefur hann kennt kröfu Merkel um niðurskurð um þá „mannúðarkrísu“ sem nú er í Grikklandi sem felur í sér fátækt og hátt hlutfall atvinnulausra í landinu.

Rúmlega helmingur Þjóðverja vill Grikkland út

Merkel, sem er undir pressu frá stjórnmálaflokk sínum, segir að ef Grikkland vilji aukinn fjárstuðning frá Evrópusambandinu, sem að stærstum hluta kemur frá Þýskalandi, verði Grikkland að standa við fyrri skuldbindingar um niðurskurð.

Í febrúar samþykktu lánardrottnar Grikklands að lengja í 240 milljarða evra láni Grikklands gegn loforði um frekari aðhaldsaðgerðum grísku ríkisstjórnarinnar.

Efnahagsráðherra Spánar, Luis de Guindos, sagði við Financial Times að Grikkland fengi ekki frekari aðstoð án þess að standa við fyrri loforð um endurbætur í landinu. Yfirlýsing Guindos er í mótsögn við það sem Tsipras hafði áður gefið út um að fjármagn myndi byrja að streyma um leið og áætlun grísku ríkisstjórnarinnar um endurbætur yrði kynnt.

Skattgreiðendur í Þýskalandi verða æ óánægðari með árásir Grikklands, þar sem bæði Merkel og hinum kröfuharða fjármálaráðherra landsins, Wolfgang Schaeuble, hefur verið lýst sem nasistum. Í nýrri skoðanakönnun kemur fram að meira en helmingur Þjóðverja telji Grikki eiga að yfirgefa evrusvæðið.

Angela Merkel og Alexis Tsipras á fundi þeirra í Þýskalandi …
Angela Merkel og Alexis Tsipras á fundi þeirra í Þýskalandi í dag. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka