Flugslys gætu hafa verið áberandi í fréttum undanfarið ár en þrátt fyrir það var síðastliðið ár það öruggasta í atvinnuflugi. Kom þetta fram í skýrslu alþjóðasamtaka áætlunarflugfélaga (IATA).
Segir í skýrslunni að þrátt fyrir að fleiri hafi farist í flugslysum í fyrra en að meðaltali nokkur undanfarin ár, hafi dauðsföllin verið færri en nokkru sinni þegar miðað væri við fjölda flugferða.
Hér fylgir listi yfir öll stærri flugslys sem átt hafa sér stað síðan í ársbyrjun 2014.
11. febrúar: Herflutningavél, af gerðinni Hercules C-130, ferst í fjallendi í Norðaustur-Alsír. 77 manns létust, einn lifði af.
8. mars: Flugvél Malaysia Airlines, MH370, hverfur á leið til Peking frá Kúala Lúmpúr í Malasíu. Leiddi hvarfið til umfangsmestu og dýrustu leitar í flugsögu mannkyns. Hvorki tangur né tetur af vélinni hefur enn fundist.
17. júlí: Flugvél Malaysia Airlines, MH17, er skotin niður af aðskilnaðarsinnum í Austur-Úkraínu. Alls létust 298 manns, af þeim voru 193 Hollendingar.
23. júlí: Taívönsk flugvél TransAsia Airways, GE222, ferst í sjónum eftir stutt flug. Reyndi hún að lenda einu sinni og mistókst. Fórst hún þegar flugmennirnir reyndu að lenda á ný.
24. júlí: Flugvél Air Algerie, AH5017, hverfur yfir Malí í vondu veðri nálægt landamærum Búrkína Fasó. Var hún á leið til Algeirsborgar frá Ouagadougou í Búrkína Fasó. Allir 116 farþegar létust, þar af 51 Frakkar.
28. desember: Flugvél AirAsia, QZ8501, hverfur á leið frá Surabaya í Indónesíu til Singapúr. Flugmaðurinn óskaði eftir leyfi til að fljúga framhjá slæmu veðri en neyðarboð bárust aldrei. 162 manns voru um borð og eru allir taldir af.
24. mars: Flugvél GermanWings brotlendir í frönsku Ölpunum nálægt þorpinu Digne, á leið sinni frá Barcelona til Düsseldorf. Allir um borð, 144 farþegar og 6 manna áhöfn, eru taldir af.