Björgunarstarf er hafið á nýjan leik þar sem þota Germanwing brotlenti í gær. Óttast er að það taki nokkra daga en brot úr vélinni dreifðust yfir stórt og illfært svæði. Allir um borð, 144 farþegar og sex manna áhöfn eru taldir af.
Enn er ekki vitað hvað olli slysinu en flugsérfræðingar benda á sambærilegu atviki sem átti sér stað í nóvember í fyrra er varðar Airbus A321 vél Lufthansa sem missti skyndilega hæð sem samsvarar 4.000 fetum.
Sú vél var einnig á leið frá Spáni til Þýskalands þann 5. nóvember 2014 eða nánar tiltekið frá Bilbao til München og var vélin komin 15 mínútur áleiðis þegar vélin tók skyndilega dýfu með nefið niður á við í 31.000 fetum en flugmennirnir náðu að rétta vélina við í 27.000 fetum, að því er segir á vefnum Allt um flug.
Frönsk flugmálayfirvöld litu atvikið mjög alvarlegum augum og var vélin kyrrsett í þrjá sólarhringa en í ljós kom að tveir áfallsskynjarar (AOA sensors) höfðu orðið fyrir ísingu og frosið sem varð til þess að Alpha Protection kerfi fór sjálfkrafa í gang en flugmönnum tókst að ná stjórn á vélinni í því tilviki.
Lufthansa viðurkenndi sl. föstudag að litlu hefði munað að sú vél hefði hrapað vegna atviksins samkvæmt fréttum airnation.net sem vitnar í grein þýska dagblaðsins Der Spiegel.
Þar kemur fram að flugtölva vélarinnar hafi látið vélina skyndilega taka mikla dýfu er hún var að klifra upp í farflugshæð eftir að hafa fengið rangar upplýsingar frá skynjurum utan á vélinni en vélin lenti giftusamlega í Munchen.
Lufthansa lét skipta um skynjarana á öllum 80 smærri Airbus-vélunum í flota félagsins í kjölfar atviksins en skýrsla vegna atviksins var gefin út í gær - sama dag og Airbus A320 vél Germanwings fórst í frönsku Ölpunum.
Í kjölfar atviksins gaf EASA út fyrirmæli í desember að skipta þyrfti út áfallsskynjurunum út fyrir aðra tegund á öllum Airbus A320, A321 og A319 vélum.
Hvers vegna sendi áhöfnin ekki út neyðarkall?
Samkvæmt Guardian er nú verið að rannsaka flugrita vélarinnar með raddupptökum úr flugstjórnarklefa Airbus 320 þotunnar sem fórst í gær en flugvélin, flug 4U9525 lækkaði flugið hratt skömmu fyrir slysið.
Þeir sem vinna að rannsókn flugslyssins segjast undrast það hvers vegna áhöfnin sendi ekki út neyðarkall þegar flugvélin snarlækkaði flugið í átta mínútur eða hvers vegna flugmennirnir breyttu ekki flugleiðinni til þess að koma í veg fyrir að brotlenda í fjalllendinu á 700 km hraða á klukkustund.
Síðustu tíu mínúturnar áður en flugvélin brotlenti var algjör þögn í fjarskiptum frá áhöfn Airbus þotunnar sem var á leið frá Barcelona til Düsseldorf.
Talið er að þotan hafi ekki lent í ókyrrð því veðrið var gott þegar hún hrapaði, heiðskírt og hægur vindur, að sögn franskra embættismanna.
Þetta er mannskæðasta flugslys á meginlandi Frakklands frá árinu 1974 þegar þota Turkish Airlines hrapaði og 346 manns létu lífið.
Þetta er í fyrsta skipti sem þota í eigu Germanwings ferst. Þotan var 24 ára gömul en meðalaldur Airbus-þotna flugfélagsins er um níu ár. Flugstjórinn var reyndur og hafði starfað fyrir Germanwings í tíu ár.
Thomas Winkelmann, framkvæmdastjóri Germanwings, sagði að þotan hefði byrjað að lækka flugið um mínútu eftir að hún náði farflugshæð og haldið áfram að lækka flugið í átta mínútur. Hún hefði verið í um 6.000 feta hæð þegar franskir flugumferðarstjórar misstu samband við hana klukkan 10.53 að staðartíma, klukkan 9.53 að íslenskum.
Lýst hefur verið yfir þjóðarsorg á Spáni en 67 þeirra sem voru um borð eru Þjóðverjar, þar af sextán grunnskólanemar á leiðinni heim úr skólaferðalagi. 45 þeirra sem voru um borð bera spænsk nöfn. Eins voru Ástralir, Tyrkir, Danir, Hollendingar og Belgar um borð og er óttast að Bretar hafi einnig verið um borð en það hefur ekki verið staðfest.
Leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Spánar heimsækja slysstaðinn
Leiðtogar Frakklands, Þýskalands og Spánar munu fara á slysstaðinn síðar í dag en leiðtogarnir: François Hollande, Frakklandsforseti, Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar munu fara saman á vettvang. Náið samstarf er meðal þjóðanna þriggja um hvernig staðið er að björgunarstarfi og um leið rannsókn á orsökum slyssins.
Aðstoðarforstjóri Lufthansa, Heike Birlenbach, sagði að gengið væri út frá því að um flugslys væri að ræða og ekkert hefði komið fram sem benti til hryðjuverks. „Allar aðrar tilgátur væru bara vangaveltur,“ hafði fréttaveitan AFP eftir henni.