Seðlabanki Evrópu ræður grískum bönkum frá því að kaupa grísk ríkisskuldabréf og auka þannig áhættu sína. Hefur AFP eftir heimildarmanni að seðlabankinn hafi áhyggjur af „lélegum“ eignum í bókhaldi bankanna.
Bæði Financial Times og Wall Street Journal höfðu áður sagt frá því að seðlabankinn hefði sent erindi til grískra banka, þar sem biðlað var til þeirra um að auka ekki áhættu sína. Seðlabankinn hefur hins vegar neitað að tjá sig um málið.
Grískir bankar eru þær stofnanir sem eiga hvað stærstan þátt í fjármögnun gríska ríkisins um þessar mundir, en þær eru helsti kaupandi grískra ríkisskuldabréf til skemmri tíma. Grísk skuldabréf eru hins vegar í ruslflokkum matsfyrirtækjanna.
Í febrúar sl. hætti Seðlabanki Evrópu að taka veð í grískum ríkisskuldabréfum, sem kom afar illa við gríska banka. Seðlabankinn hafði áður samþykkt skuldabréfin samkvæmt ákveðinni undanþágu, en hún hefur verið afturkölluð þar til stjórnvöld í Aþenu ná samkomulagi við lánadrottna sína.
Grískir bankar reiða sig nú á fjármögnun frá ELA, Emergency Liquidity Assistance, en hún er mun konstaðarsamari en hefðbundin fjármögnun.