Gera loftárásir á Jemen

Sendiherr Sádí Arabíu, Adel bin Ahmed Al-Jubeir tilkynnti um loftárásirnar …
Sendiherr Sádí Arabíu, Adel bin Ahmed Al-Jubeir tilkynnti um loftárásirnar í kvöld. AFP

Herfloti Sádi Arabíu hefur hafið loftárásir gegn Houthi fylkingunni í Jemen, með liðstyrk níu annarra ríkja, að sögn sendiherra Sádi Arabíu í Bandaríkjunum Adel bin Ahmed Al-Jubeir. Að hans sögn munu hernaðaraðgerðirnar þó ekki einskorðast við loftárásir. 

Í frétt RT um málið kemur fram að Bandaríkin eru ekki eitt hinna níu ríkja sem taka þátt í aðgerðinni.  

Sádi Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Bahrain, Katar og Kúveit hafa gefið út sameiginlega yfirlýsingu þar sem ríkin segjast hafa ákveðið að brjóta á bak aftur Houthi fylkinguna, Al-Qaeda og Ríki íslams í Jemen. Ríkin segjast vera að bregðast við gríðarlegri ógn sem steðjar að svæðinu.

Þrátt fyrir að sendiherrann hafi haldið því staðfastlega fram að yfirvöld Sádi Arabíu hafi einungis ráðfært sig við yfirvöld í Bandaríkjunum hefur fréttastofa Reuters heimildir fyrir því að Bandaríkin hafi stutt við hernaðaraðgerðirnar með ótilgreindum hætti.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert