Árið 2016 gætu íbúar Kaliforníu kosið um lögleiðingu þess að aflífa samkynhneigt fólk með „byssukúlum í höfuðið“ eða „hvaða öðrum hætti sem hentar“.
Meðal verkefna Kamala Harris, ríkissaksóknara Kaliforníu, er að gera úttektir og búa til opinberan titil á tillögur að nýjum lögum sem sendar eru inn af kjósendum. Fyrir héraðsdómi Sacramento á miðvikudag baðst hún hinsvegar undan því að vinna að einni slíkri tillögu sem kölluð er „Sodomite Suppression Act“. „Í þessu tilfelli erum við að tala um tillögu sem kallar bókstaflega eftir ofbeldi. Sem kallar eftir að fólk taki lögin í eigin hendur,“ segir Harris í samtali við Sacramento Bee. „Ég vil hreint út sagt ekki vera í þeirri aðstöðu að gefa þessum orðum nokkurt lögmæti.“
Tillagan var send inn af lögfræðingnum Matthew McLaughlin í síðasta mánuði. Óljóst þykir hvort hann hafði lagt tillöguna fram í fullri alvöru eða hvort hann hafi ætlað sér að hrekkja kerfið. Kallað hefur verið eftir því að McLaughlin verði sviptur málflutningsleyfi og að ferlinu í kringum tillögur frá kjósendum verði breytt.
Ef dómstólar grípa ekki inn í hefur McLaughlin 180 daga til að safna yfir 365 þúsund undirskriftum til að koma tilllögunni á kjörseðil. Ólíklegt þykir að það verkefni takist og enn ólíklegra að tillagan yrði samþykkt. Við getum því öll andað rólega og huggað okkur við að Kalifornía mun líklega ekki lögleiða morð á samkynhneigðum.