Aðstoðarflugmaður vélar GermanWings leitaði tvisvar á sjúkrahús nýverið. Í febrúar leitaði hann álits læknis vegna sjúkdómsgreiningar. Síðari heimsóknin var þann 10. mars. Þetta kemur fram í þýska dagblaðinu Rheinischer Post. Er þetta haft eftir talsmanni háskólasjúkrahússins í Dusseldorf en sjúkrahúsið vill ekki gefa frekari upplýsingar um heimsóknir flugmannsins þangað. Í frétt Telegraph kemur þó fram að sjúkrahúsið neiti að hafa veitt honum meðferð vegna þunglyndis.
Fram hefur komið að líklega hafi flugmaðurinn, hinn 27 ára gamli Andreas Lubitz, þjáðst af þunglyndi. Hann hafi hins vegar leynt vinnuveitanda sinn því. Á heimili hans fundust læknisvottorð sem búið var að rífa.
Geðlæknar hafa í dag bent á að þunglyndi sé algengur sjúkdómur, t.d. sé talið að fjórði hver Breti þjáist af slíku. Simon Wessely, forseti Konunglegu geðlæknasamtakanna í Bretlandi, segir við BBC að ekki sé litið svo á að fólk sem greint sé með þunglyndi sé líklegra en annað til að gera það sem flugmaður GermanWings gerði. Hann segir að flugmenn rétt eins og aðrir greinist með þunglyndi. Um það þekki hann persónuleg dæmi. Þeir haldi hins vegar áfram að fljúga, „af fullu öryggi“ í kjölfarið. Hann segir því þunglyndi ekki útiloka fólk frá því að verða flugmenn svo lengi sem það sé heiðarlegt með það, fái meðferð og jafni sig, eins og flestir geri.