Reyndi að brjóta niður hurðina með öxi

Aðstoðarflugmaðurinn var einn í flugklefanum er hann tók að lækka …
Aðstoðarflugmaðurinn var einn í flugklefanum er hann tók að lækka flug vélarinnar. Flugstjórinn var læstur úti. AFP

Flugstjóri þotu Germanwings sem hrapaði í frönsku Ölpunum á þriðjudaginn reyndi að brjóta sér leið aftur inn í flugstjórnarklefann með öxi. Þetta hefur AFP-fréttaveitan eftir þýska dagblaðinu Bild í dag.

Eins og sagt hefur verið frá er nú talið að aðstoðarflugmaður­inn, Andreas Lubitz, hafi lækkaði flug vél­ar­inn­ar vís­vit­andi og í kjölfarið brotlent vélinni. Flug­stjór­inn hafði brugðið sér á kló­settið eft­ir að vél­in náði fullri flug­hæð, 38 þúsund fet­um. Hann komst aldrei aft­ur inn í flug­stjórn­ar­klef­ann þrátt fyr­ir ít­rekaðar til­raun­ir.

149 létust er þotan hrapaði. 

Samkvæmt Bild í dag reyndi flugstjórinn að brjóta sér leið inn í flugstjórnarklefann með exi eftir að Lubitz hleypti honum ekki inn í klefann. Hefur Bild þetta eftir öruggum heimildum að sögn blaðsins. Gat talsmaður Germawings ekki staðfest þetta en staðfestir að exi var um borð vélarinnar. 

Sagði hann að þess háttar verkfæri væri hluti af öryggisbúnaði vélarinnar. 

Vísbending fannst í íbúð Lubitz

Samkvæmt frétt Sky fréttastofunnar framkvæmdi lögregla húsleit í íbúð Lubitz í Düsseldorf í gær og á heimili foreldra hans í Montabaur þar sem Lubitz bjó einnig. Hann var 27 ára gamall. 

Í nokkrar klukkustundir sást til rannsakenda fjarlægja kassa frá báðum húsunum. Í Düsseldorf sagðist lögregla vera að reyna að finna vísbendingar um af hverju aðstoðarflugmaðurinn gerði það sem hann gerði. 

Samkvæmt frétt The Daily Telepgraph fannst einhverskonar vísbending í íbúðinni í Düsseldorf, sem gæti útskýrt ákvörðun aðstoðarflugstjórans. Var þó lögð áhersla á að vísbendingin var ekki sjálfsmorðsbréf. „Við höfum fundið eitthvað sem verður nú rannsakað. Við getum ekki sagt til um hvað það er á þessum tímapunkti en það gæti verið mikilvæg vísbending,“ sagði Markus Niesczery hjá lögreglunni í Düsseldorf. 

Nágrannar Lubitz í Montabaur neituðu að trúa fregnunum af tengslum Lubitz við brotlendinguna. Einn maður sem vildi ekki koma undir nafni sagðist hafa þekkt hann síðan hann var barn. „Ég get ekki ímyndað mér að hann hafi gert þetta viljandi,“ sagði hann. 

„Þetta passar ekki við ímyndina sem ég hafði af honum. Þetta er mjög heilbrigð fjölskylda, hjálpsöm og ég skil ekki hvað gerðist.“

Var það æskudraumur Lubitz að fljúga flugvélum. Þegar hann var unglingur fékk hann sviffluguréttindi eftir að hafa fengið þjálfun í heimabæ sínum. Klaus Radke, formaður svifflugsklúbbsins, sagði að Lubitz hefði verið rólegur en ábyrgðarfullur maður.

Eftir að hafa fengið flugþjálfun í Arizona í Bandaríkjunum hóf hann störf hjá þýska flugfélaginu Lufthansa, sem á Germanwings. Framkvæmdastjóri Lufthansa hefur lýst því yfir að starfsfólk flugfélagsins sé vandlega valið og að allir séu látnir gangast undir sálfræðimat.

Sagði hann jafnframt að þrátt fyrir að Lubitz hefði hugsanlega verið þunglyndur hefði ekkert gefið til kynna að hann gæti hafa verið í sjálfsmorðshugleiðingum. 

Andreas Lubitz, flugmaðurinn sem ljóst þykir að hafi brotlent vélinni …
Andreas Lubitz, flugmaðurinn sem ljóst þykir að hafi brotlent vélinni viljandi. AFP
Þyrla við slysstaðinn í frönsku Ölpunum í gær.
Þyrla við slysstaðinn í frönsku Ölpunum í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert