Jimmie Åkesson, hinn umdeildi leiðtogi Svíþjóðardemókrata, sneri aftur í stjórnmál í vikunni eftir að hafa verið í veikindaleyfi í næstum sex mánuði. Hann var viðmælandi í þættinum Skavlan í norska ríkissjónvarpinu á föstudaginn en viðtalið hefur valdið miklu fjaðrafoki. Mörgum finnst þáttastjórnandinn hafa gengið afar harkalega fram gegn Åkesson. Aðrir hrósa framgöngu hans og segja hörkuna eiga rétt á sér.
Stjórnmálamenn bæði í Noregi og Svíþjóð hafa tjáð sig um viðtalið.
Spurði þáttastjórnandinn Åkesson sérstaklega um orðræðuna sem sumir frambjóðendur Svíþjóðardemókratar hafa beitt í kosningum.
Skavlan: „Ég er sérstaklega að hugsa um orðræðuna sem beitt hefur verið og þú þekkir sjálfur. Bæði frá frambjóðendum og meðlimum flokks þíns. Þú segir sjálfur að kynþáttahatur líðist ekki innan flokksins, en samt nota frambjóðendur orð eins og sníklar, gyðingasvín, engisprettur og kakkalakkar. Eru þetta orð sem er í lagi að nota um þjóðfélagshópa?“
Åkesson: „Þetta eru ekki orð sem eru frá mér komin, það veistu.“
Skavlan: „En þetta eru þínir frambjóðendur. Þeir koma fram í nafni flokksins.“
Åkesson: „Nei þeir gera það klárlega ekki.“
Skavlan: „En þetta eru Svíþjóðardemókratar.“
Åkesson: „Ef þeir nota svona orð þá eru það ekki lengur Svíþjóðardemókratar.“
Alls hafa norska ríkissjónvarpinu og Fjölmiðlanefnd landsins borist yfir 2 þúsund kvartanir, sem er met þar í landi.
Stjórnarmaður í stjórn norska ríkissjónvarpsins segir að skoða verði málið. „Ég mun aldrei gagnrýna fjölmiðlamann fyrir að spyrja gagnrýnna spurninga. Ég set hins vegar spurningarmerki við það hvort verið sé að sparka í liggjandi mann. Það er enginn vafi á því að Åkesson er ekki fullfrískur eins og kom fram í viðtalinu,“ segir Erik Berg-Hansen í samtali við Verdens gang.
Fredrik Skavlan segir við Verdens gang að það hafi ekki verið ætlunin að niðurlægja Åkesson. „Það virðist alltaf vera þannig að viðtöl við stjórnmálaleiðtoga þóknast ekki öllum. Sumum finnst við ganga of harkalega fram og aðrir telja okkur ganga of varlega fram. Það tengist því oftast hver pólitísk skoðun hvers og eins er. Það var ekki ætlun okkar að niðurlægja eða valta yfir Åkesson, heldur að ræða við hann ástandið í sænskum stjórnmálum, sem varð til þess að hann veiktist andlega.“