Þeir fimmtán repúblikanar sem helst hafa verið nefndir sem mögulegir forsetaframbjóðendur flokksins á næsta ári eiga að minnsta kosti fjörutíu skotvopn samanlagt. Nær allir eru þeir alfarið á móti hertum reglum um skotvopnaeign.
The Washington Post fjallar um skotvopnaeign vonarstjarna Repúblikanaflokksins. Sumir þessara hugsanlegu frambjóðenda í forvali flokksins eignuðust sitt fyrsta skotvopn seint um ævina eins og öldungadeildarþingmaðurinn Marco Rubio sem keypti sér Magnum-skammbyssu árið 2010. Hann segir byssuna vera ætlaða til sjálfsvarnar.
Aðrir hafa hins vegar alist upp með byssum frá blautu barnsbeini. Þannig á öldungadeildarþingmaðurinn Lindsey O. Graham tólf skotvopn, þar á meðal AR-15-hríðskotabyssu sem hann hefur talað um að nota ef lög og regla bregst einhvern tímann í hverfinu hans. Fv. ríkisstjórinn Rick Perry á meðal annars sérstaka byssu sem hann hefur á sér þegar hann fer út að skokka.
Repúblikanarnir fimmtán eru hins vegar nærri því á einu máli um réttinn til byssueignar í Bandaríkjunum. Ellefu þeirra munu koma fram á ársþingi skotvopnasamtaka Bandaríkjanna NRA í næsta mánuði. Allir þeirra fyrir utan Chris Christie, ríkisstjóra í New Jersey, njóta velþóknunar samtakanna á afstöðu þeirra til skotvopnaeignar.
Ólíklegt verður því að teljast að lög um skotvopnaeign verði hert í Bandaríkjunum ef fulltrúi repúblikana sigrar í forsetakosningunum 2016 þrátt fyrir að heitar umræður hafi skapast í landinu eftir fjölda blóði drifinna skotárása í skólum og öðrum opinberum stöðum undanfarin ár.