Tvö flutningaskip misstu í desember á síðasta ári sinn hvorn gáminn af gaskútum í sjóinn á mili Íslands og Noregs í slæmu veðri og hafa kútarnir verið að reka á land þar að undanförnu í Norður-Noregi. Samtals fóru í sjóinn 1280 kútar. Fréttavefurinn An.no segir frá þessu í dag.
Gaskútarnir voru á vegum danska fyrirtækisins Kosan Gas og hefur það sent út tilkynningu þar sem fólk er varað við því að koma nálægt kútunum. Þess í stað skuli það hafa samband við viðkomandi slökkvilið sem sjái um að fjarlægja kútana og koma þeim til fyrirtækisins til eyðingar.
Gaskútarnir innihalda própangas eins og notað er á gasgrill. Haft er eftir Stig Ramsvik, starfsmanni Kosan Gas í Noregi að venjulega séu slíkir gaskútar ekki hættulegir en hins vegar sé lítið vitað um ástand þeirra eftir að þeir hafi velkst um í sjónum í svo langan tíma.
Búist er við að gaskútarnir haldi áfram að reka á land á næstu mánuðum í vaxandi mæli.