Oliver grillar Ramsay

Jamie Oliver og Gordon Ramsay eru í stöðugri samkeppni.
Jamie Oliver og Gordon Ramsay eru í stöðugri samkeppni.

Það er aftur tekið að hitna í kolunum á milli sjónvarpskokkanna bresku Gordons Ramsay og Jamie Oliver. Oliver segir Ramsay „mjög afbrýðisaman“ út í sig.

Á sunnudag var Oliver staddur í óperuhúsinu í Sydney. „Gordon gerir hvað sem er til að skjóta á mig því hann er mjög afbrýðisamur og skilur ekki hvers vegna ég geri það sem ég geri og hvers vegna hann getur ekki gert það sama,“ er haft eftir Oliver og bætti við: „Hann er of upptekinn við að öskra og æpa og að láta líta svo út fyrir að öll okkar stétt sé bara hópur öskurapa.“

Oliver segir Gordon fá borgað fyrir að vera neikvæður. Oliver sá svo eftir þessum ummælum sínum og sagði við áströlsku fréttaveituna APP: „Ég er pirraður á að hafa sagt þetta því í nokkur ár þá beit ég frá mér og leið vel með það en ég held að það sé ekki mjög ábyrgt af mér að taka þennan slag aftur því ég vil ekki að börnin hans verði leið yfir því að ég sé að munnhöggvast við pabba þeirra.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessir tveir þekktustu sjónvarpskokkar veraldar skjóta hvor á annan. Ramsay hefur sagt Oliver „dægurflugu“ og Oliver hefur að sama skapi ýjað að því að Ramsay hafi fengið sér bótox í andlitið.

Þá var haft eftir Ramsay árið 2009 að í síðasta skipti sem hann hefði kvartað undan mat á veitingastað hafi verið á stað Jamie Oliver.

Nýjasta rimman hófst við opnun Bread Street Kitchen í Hong Kong. Þá skammaði Ramsay Oliver fyrir að mæta ekki á opnun á eigin veitingastað. „Ég var í það minnsta á staðnum við opnuna, ekki satt? Ef þú ætlar að opna veitingastað í Hong Kong ættir þú í það minnsta að mæta sjálfur,“ sagði hann við CNBC sjónvarpsstöðina.

Í frétt Telegraph um málið eru teknar saman ýmsar upplýsingar sem taldar eru mælikvarðar á velgengni þeirra. 

Jamie Oliver:

Verðmæti: 50 milljarðar króna

Fjöldi veitingastaða: 50

Fjöldi vörumerkja: 6, þar af veitingastaðirnir Jamie´s Italian sem eru 39 talsins.

Útgefnar bækur: 26

Fjöldi seldra bóka: 37 milljónir

Michelin stjörnur: 0

Gordon Ramsay:

Verðmæti: 16,6 milljarðar króna

Veitingastaðir: 33

Vörumerki: 12

Útgefnar bækur: 21

Fjöldi seldra bóka: 3 milljónir

Michelin stjörnur: 3

Því er ljóst að Jamie Oliver er verðmætari í krónum og aurum en hins vegar er Ramsay með þrjár Michelin-stjörnur á veitingahúsum sínum en Oliver enga. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert