Togari fórst í gærkvöldi að íslenskum tíma út af Kamchatka-skaga í austurhluta Rússlands með þeim afleiðingum að 56 létu lífið hið minnsta. Björgunarsveitum hefur tekist að bjarga tugum annarra úr sjónum.
Fram kemur í frétt AFP að um versta sjóslys af þessu tagi sé um að ræða í sögu Rússlands. Samtals voru 132 manns um borð í togaranum Dalny Vostok þegar hann fórst. Ekki er vitað með hvaða hætti slysið varð en talið er hugsanlegt að togarinn hafi rekist á annað skip. Samtals hefur 63 verið bjargað úr sjónum til þessa.