37 ára Bandaríkjamaður, sem saknað var í 66 daga eftir að hann týndist út á sjó, er fundinn á lífi. Hann segir trúna hafa haldið sér á lífi, en hann veiddi fisk með berum höndum og drakk rigningarvatn til þess að lifa af.
Maðurinn, Louis Jordan að nafni, hafði hvolft bátnum sínum en ferðalag hans hófst undir lok janúarmánaðar, þegar hann hélt til veiða. Þegar hann hafði ekki látið heyra í sér í nokkra daga fór faðir hans, Frank Jordan, að hafa áhyggjur af honum. Louis hafði ekki mikla reynslu af sjómennsku, en faðirinn hafði þó trú á stráknum.
Umfangsmikil leit stóð yfir að bátnum og fannst Louis loks, ofan á hvolfdum bát sínum, um 300 kílómetrum frá strönd Norður-Karólínu í Bandaríkjunum. Það voru áhafnarmeðlimir á þýsku flutningaskipi sem komu auga á Louis og komu honum til bjargar, en þyrla frá strandgæslu Bandaríkjanna sótti hann í kjölfarið og flaug með hann á sjúkrahús.
Frank segist ávallt hafa trúað því að sonurinn myndi finnast á lífi. Hann hafi aldrei gefið upp vonina. Hann sagði jafnframt að trúrækni Louis, sem og gott líkamlegt ástand hans, hefði hjálpað honum að lifa af, að því er segir í frétt NBC News.