Létu krossfesta sig í morgun

Markmiðið er að upplifa þjáningar Krists á eigin skinni og …
Markmiðið er að upplifa þjáningar Krists á eigin skinni og iðrast. AFP

Fjöldi fólks fylgdist með á Filippseyjum í morgun þegar hópur kaþólikka fetaði í fótspor Jesú Krists með því að láta krossfesta sig. Þetta er árviss viðburður á Filippseyjum, en fólkið leggur margt á sig til þess að upplifa síðustu stundir Krists. 

Það lætur húðstrýkja sig til blóðs áður en það er neglt á krossa sem búið er að reisa upp.

Talið er að allt að fjögur þúsund manns, þá fyrst og fremst erlendir ferðamenn, hafi fylgst með athöfninni í þorpinu San Pedro Cutud, skammt frá höfuðborginni Manila, í morgun. En ólíkt fyrri árum, þá er ferðamönnum í ár óheimilt að láta krossfesta sig.

Hettuklæddir menn gengu um götur þorpsins með svipur sem þeir húðstrýktu sig þannig að blóðið skvettist á viðstadda. 

Sex manns tóku þátt í athöfninni í San Pedro Cutud. Voru nokkurra sentímetra langir naglar, sem eru jafnan baðaðir í áfengisanda, reknir í gegnum hendur og fætur fólksins og það síðan reist upp á trékross, að því er segir í frétt AP-fréttaveitunnar.

Kaþólska kirkjan hefur lýst yfir vandlætingu sinni á þessum aðförum. Þeir sem láta krossfesta sig eru hins vegar sannfærðir um að þeir fái eins konar „gjöf frá guði“ í staðinn, eins og til dæmis að nánir ættingjar þeirra nái heilsu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert