Evo Morales, forseti Bólivíu, hefur rekið Jorge Ledezma, varnarmálaráðherra landsins, vegna umdeildar peysu sem hann klæddist þegar hann fór í heimsókn til Síle á dögunum.
Á peysunni stóð slagorðið „Bólivía á sjóinn“ sem vísar til aldagamalla deila á milli Bólivíu og Síle vegna stórs landsvæðis sem liggur að Kyrrahafi. Svæðið, sem nær yfir um 400 kílómetra, hefur tilheyrt stjórnvöldum í Síle frá því í Kyrrahafsstríðinu seint á nítjándu öld.
Fyrir stríðið átti Bólivía landsvæðið og hafa stjórnvöld þar í landi reynt hvað þau geta til að endurheimta það aftur.
Ledezma var harðlega gagnrýndur fyrir að klæðast peysunni í heimsókn sinni og taldi ríkisstjórnin í Síle að markmið hans væri aðeins eitt, að ögra. Ledezma þvertók hins vegar fyrir það og sagðist hafa farið í peysuna vegna þess að honum var orðið kalt.
Morales tók ekki undir sjónarmið varnarmálaráðherrans, bað ríkisstjórnina afsökunar og rak hann úr starfi, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.