Hassan Rouhani, forseti Íran, hefur sagt að hann muni virða skilmála rammasamkomulagsins um kjarnorkuáætlun landsins sem sátt náðist um í gær, svo lengi sem viðsemjendur Íran geri slíkt hið sama.
„Heimurinn þarf að vita að við ætlum okkur ekki að svindla,“ segir Rouhani. En einnig: „Ef þeir vilja fara aðra leið einn daginn, þá hefur íranska þjóðin einnig aðra kosti.“
Ekki hefur náðst saman um öll atriðið samkomulagsins en það felur í sér takmarkanir á kjarnorkuþróun Írana gegn afléttingu refsiaðgerða.
Rouhani sagði í ávarpi að heimurinn hefði nú viðurkennt að Íranir hefðu rétt til þess að auðga úran innan eigin landamæra og að í því fælist ekki ógn.