Hékk í lendingarbúnaðinum

Maðurinn hélt sér í lendingarbúnað Boeing-farþegaþotu í klukkustundarlangri ferðinni. Myndin …
Maðurinn hélt sér í lendingarbúnað Boeing-farþegaþotu í klukkustundarlangri ferðinni. Myndin er úr safni. AFP

Laumufarþegi komst lífs af þrátt fyrir að hann hafi hangið í lendingarbúnaði Boeing-þotu í klukkustund á leiðinni til Jakarta, höfuðborgar Indónesíu. Maðurinn gæti átt fangelsisdóm yfir höfði sér verði hann ákærður fyrir athæfið en hann er sagður hafa dauðlangað að heimsækja þennan fæðingarstað sinn.

Hinn 21 árs gamli Mario Steven Amabarita viðurkenndi fyrir yfirvöldum að hafa lagt á ráðin um ferðalagið í meira en ár og að hann hafi kynnt sér flugvelli í því skyni. Hann laumaðist út á flugbrautina og prílaði svo upp í lendingarbúnað farþegaþotunnar á Súmötru í gær. Flugferðin tók um klukkustund.

Talsmaður samgönguráðuneytis Indónesíu segir að Amabarita hafi sett sjálfan sig í mikla hættu. Vélin hafi flogið í allt að 34.000 feta (10.350 metra) hæð en þar er loftið afar þunnt og hitastigið undir frostmarki.

Amabarita gat engu að síður gengið þegar hann lenti í Jakarta en hann var reikull í spori og það blæddi úr eyranu á honum. Yfirheyrslur yfir honum standa enn yfir en hann gæti átt yfir höfði sér allt að árs fangelsi verði hann ákærður fyrir að stefna öryggi flugvélarinnar í hættu.

Samgönguráðuneytið hefur beitt stjórnendur flugvallarins á Súmötru refsiaðgerðum og lofað að bæta öryggi um allt land til þess að koma í veg fyrir að sambærileg atvik eigi sér stað aftur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert