Sá sem tók upp morðið á fimmtugum svörtum manni, Walter Scott, í borginni North-Charleston segir að lögreglumaðurinn, Michael Slager, hafi haft stjórn á Scott en skömmu síðar skaut Slager Scott átta skotum í bakið.
Í kjölfar birtingar myndskeiðs sem sýnir Slager skjóta Scott var lögreglumaðurinn handtekinn og ákærður fyrir morð. Myndskeiðið var tekið upp á síma af Feidin Santana, 23 ára. Hann mætti í viðtal hjá NBC-sjónvarpsstöðinni í gærkvöldi.
Á sama tíma fóru fram friðsamleg mótmæli í Suður-Karólínuríki en þeir sem tóku þátt í mótmælunum segja að ofbeldið sem lögreglumaðurinn beitti sé svipað því og svartir verði ítrekað fyrir í Bandaríkjunum af hálfu hvítra lögreglumanna.
Myndskeiðið var birt opinberlega á þriðjudagskvöldið en Scott var skotinn til bana á laugardag.
„Áður en ég byrjaði að taka upp voru þeir á jörðinni. Ég man að lögreglumaðurinn hafði stjórn á ástandinu,“ segir Santana í viðtalinu um hvað hann hefði séð áður en hann fór að taka upp. „Hann hafði stjórn á Scott og Scott var að reyna að forða sér undan rafbyssunni. Ég vissi strax að ég væri með eitthvað,“ segir Santana í viðtalinu.
Slager var handtekinn og ákærður fyrir morð á þriðjudag og síðan rekinn úr lögreglunni í gær. Borgarstjórinn í North-Charleston, Keith Summey, segir að þrátt fyrir að Slager, 33 ára, hafi verið rekinn muni borgin áfram annast tryggingu hans þar til eiginkona hans, sem er komin átta mánuði á leið, fæðir barnið. Slager á einnig tvö stjúpbörn.
Summey segir að borgin hafi fengið heimild til þess að panta 101 myndavél sem starfsmenn borgarinnar eigi að ganga með og eins hafi hann pantað 150 myndavélar til viðbótar sem lögreglumenn verða þjálfaðir í að nota.
Að sögn Michaels Browns, sem tók þátt í mótmælunum í North-Charleston í gærkvöldi, hefðu hlutirnir getað orðið enn verri í Charleston en í Ferugson ef myndskeiðið hefði ekki verið birt. Vísar hann til þess þegar lögregluþjónn í bænum Ferguson skaut óvopnaðan ungan svartan mann til bana í ágúst. Viðkomandi lögreglumaður var ekki ákærður enda engin upptaka til af atburðinum líkt og á laugardag í North-Charleston.
Scott var stöðvaður af lögreglu á laugardag vegna þess að ljós á bifreið hans var brotið. Samkvæmt lögregluskýrslu átti Scott að hafa tekið rafbyssu Slagers en í myndskeiði Santana, sem var birt á vef New York Times, sést að það er Scott sem varð fyrir höggi úr byssunni þegar þeir takast á. Þegar Scott, sem er mikill að vexti, reynir að flýja tekur Slager upp skammbyssu sína og skýtur Scott átta sinnum í bakið. Slager sést síðan taka upp hlut af jörðinni og leggur hann hjá líki Scotts.
Að sögn lögmanns fjölskyldu Scotts, Chris Stewarts, hæfðu fimm byssukúlur Scott og hefur hann það eftir réttarmeinafræðingnum sem krufði líkið.
Faðir Scotts, sem einnig heitir Walter, segir að fjölskyldan sé niðurbrotin vegna dauða hans en þakklát fyrir myndskeiðið. „Það hvernig hann skaut úr byssunni líkist einna helst því að hann hafi verið að reyna að skjóta dádýr eða eitthvað sem hleypur í skóginum. Ég veit ekki hvort það tengist rasisma eða hvort það er eitthvað að honum í höfðinu,“ segir Scott í viðtali við Today Show á NBC í gær. Hann þakkar guði fyrir myndskeiðið. „Þegar ég sá það brast hjarta mitt. Ég sagði: þetta getur ekki verið. Ég sá það. Ég gat ekki meir.“