Foreldrar sem ekki bólusetja börn sín gætu átt á hættu að missa bótagreiðslur, að upphæð 2100 áströlsk pund á hvert barn, gangi nýtt lagafrumvarp í gegn í Ástralíu. Frumvarpinu er ætlað að berjast gegn fjölgun óbólusettra barna og gæti það sparað ríkinu allt að 50 milljónir dala á ári hverju. Þetta kemur fram í umfjöllun ástralska blaðsins The age.
Foreldrar 39 þúsund barna hafa skrifað undir áskorun til yfirvalda um að þau hafi persónulega, heimspekilega, læknisfræðilega eða trúarlega ástæðu til að láta ekki bólusetja börn sín.
Gert er ráð fyrir að margir stuðningsmenn bólusetninga og læknar muni fagna lagabreytingunni, en áhyggjur hafa aukist í Ástralíu vegna fjölda kíghósta tilfella og annarra smitsjúkdóma.
Andstæðingar frumvarpsins segja aftur á móti að það muni draga úr því að foreldrar sem kjósi að bólusetja ekki börn sín leiti til lækna og hjúkrunarfólks og ræði við þau um bólusetningar.