Tveir bandarískir háskólanemar hafa verið handteknir grunaðir um að hafa nauðgað nítján ára gamalli konu á strönd í Flórída í síðasta mánuði. Mennirnir voru í Flórída í fríi en þeir eru nemendur við háskólann í Troy í Alabama.
Að sögn yfirvalda stóðu mörg hundruð manns og horfðu á er mennirnir nauðguðu konunni. Var ekkert gert til þess að stöðva mennina. Þeir eru 22 og 23 ára gamlir en þeir voru handteknir í gær og ákærðir. NBC segir frá þessu.
Málið komst upp eftir að lögregluyfirvöld í Troy fundu myndskeið sem sýndi nauðgunina sem gerðist dagana 10. til 12. mars. Þeir voru að rannsaka ótengda skotárás þegar þeir fundu myndbandið. Lögreglustjórinn í Bay County, Frank McKeithen sagði að myndbandið væri „líklega það ógeðslegasta, andstyggilegasta og sjúkasta“ sem hann hefur séð á þessu ári á þessari ákveðnu strönd. „Og ég hef séð margt þar,“ bætti hann við.
„Í aðeins þriggja metra fjarlægð voru mörg hundruð manns sem stóðu bara og horfðu og heyrðu hvað var í gangi,“ bætti hann við og sagði að líklega yrðu fleiri handteknir vegna málsins.
Mennirnir sem voru handteknir á föstudaginn mættu fyrir dómara í gær. Þeir hafa báðir verið reknir úr námi.