Hetja vinstrisins í Rómönsku Ameríku öll

Eduardo Galeano er látinn, 74 ára að aldri.
Eduardo Galeano er látinn, 74 ára að aldri. AFP

Úrúgvæski rithöfundurinn og blaðamaðurinn Eduardo Galeano er látinn 74 ára að aldri. Hann var einn helsti andmælandi kapítalismans í Rómönsku Ameríku en þekktasta verk hans er bókin „Opnar æðar Rómönsku Ameríku“. Hún komst á metsölulista í Bandaríkjunum eftir að Hugo Chávez, þáverandi forseti Venesúela, gaf Barack Obama Bandaríkjaforseta eintak árið 2009.

Vikublaðið Brecha, þar sem Galeano ritaði greinar, staðfesti að hann hefði látist af völdum krabbameins í Montevideo í dag. Bókin [sp. Las venas abiertas de América Latina] kom út árið 1971 og ber undirtitilinn „Fimm aldir af rányrkju á heimsálfu“. Í henni hélt Galeano fram að heimsálfunni hafi verið haldið í örbrigð til að viðhalda ríkidæmi Evrópubúa og Bandaríkjamanna í gegnum aldirnar. Vísaði hann til nýtingu þeirra á auðlindum álfunnar eins og gulli og silfri máli sínu til stuðnings.

Bókin varð að nokkurs konar höfuðriti vinstrimanna í álfunni og var hún meðal annars bönnuð af herstjórnum Síle, Argentínu og Úrúgvæ á sínum tíma. Síleski rithöfundurinn Isabella Allende skrifaði formála að endurútgáfu bókarinnar nýlega þar sem hún sagði eintak af henni hafa verið með því fáa sem hún hafði með sér þegar hún flúði heimalandið eftir valdrán hersins árið 1973.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert