Sjö Frakkar hafa framið sjálfmorðsárásir

Manuel Valls á þinginu í dag.
Manuel Valls á þinginu í dag. AFP

Forsætisráðherra Frakklands greindi frá því í dag að sjö franskir ríkisborgarar hafa framið sjálfsmorðsárásir í Sýrlandi og Írak síðustu mánuði. Sex þeirra höfðu snúist til Íslam.

Þetta kom fram í ræðu forsætisráðherrans, Manuel Valls, á franska þinginu í dag. Forsætisráðherrann var að verja ný lög um njósnir sem hafa verið harðlega gagnrýnd. Í ræðu Valls kom fram að af þeim hundruðum einstaklinga frá Frakklandi sem eru nú á yfirráðasvæðum Ríkis íslams, hafi sjö þeirra framið sjálfsmorðsárásir. 

„Sá yngsti var ekki orðinn tvítugur,“ sagði Valls. 

Í dag var löggjöfin rædd á þinginu en hún leyfir njósnurum að safna saman upplýsingum um þá sem grunaðir eru um að berjast í „heilögu stríði“ í Írak og Sýrlandi. 

Í gær birti franska dagblaðið Le Figaro viðtal við nefndarmann Evrópudómsstólsins, Vera Jourova, sem sagði að 5-6 þúsund Evrópubúar séu nú meðlimir í hópum skæruliða í Sýrlandi. 

Ríki íslams lýsti því yfir í júní á síðasta ári að stofnaði hafi verið kalífadæmi í Írak og Sýrlandi. Meðlimir samtakanna hafa náð yfirráðum á stórum landssvæðum og framið voðaverk sem haft hafa áhrif á þúsundir manna. Meðlimir samtakanna hafa jafnframt tekið fjölmarga af lífi og rústað fornum borgum í Írak. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert