Framsæknir demókratar freista þess nú að fá Hillary Clinton, eina forsetaefni flokksins enn sem komið er, til að taka einarða afstöðu varðandi loftslags- og efnahagsmál og munu ekki lýsa yfir stuðningi við frambjóðandann fyrr en hún hefur útlistað stefnumál sín frekar.
Að því er fram kemur hjá Guardian hafa margir áhrifamiklir vinstrimenn lýst yfir stuðningi við einstaklinga á borð við Elizabeth Warren, sem hafa tekið afdráttarlausa afstöðu til þessara mála. Hins vegar hafa vonir dvínað um framsækinn keppinaut í forkosningunni.
Bill de Blasio, borgarstjóri New York og fyrrverandi kosningastjóri Clinton, hefur sagt að meðal fyrrnefndra mála séu framsækin skattlagning, bætt launakjör og auðmagnsskattur. Hann sagði í samtali við NBC að hann teldi mikilvægt að Clinton afhjúpaði áherslur sínar sem fyrst.
Zephyr Teachout, sem bauð sig fram til ríkisstjóra New York í fyrra, segist ekki hafa gefið upp vonina að framsæknari forsetaefni úr röðum demókrata gefi sig fram, né að Clinton taki frjálslyndari afstöðu til málefn á borð við endurbætur á bankakerfinu.
Í samtali við Guardian sagði Teachout að marga lengdi eftir því að einhver tæki opinbera afstöðu gegn því haftaafnámi sem hefði átt sér stað í stjórnartíð Bill Clinton.
Warren hefur ítrekað tekið fyrir að hún muni bjóða sig fram til forseta í komandi kosningum, en Martin O'Malley, fyrrverandi ríkisstjóri Maryland, lýsti því yfir á mánudag að hann hygðist etja kappi við Clinton. Hann hefur þó ekki formlega lýst því yfir að hann muni gefa kost á sér.
Kosningateymi utanríkisráðherrans fyrrverandi hefur staðfastlega haldið því fram að markmið framboðsins sé að skapa betri efnahagsaðstæður fyrir venjulega Bandaríkjamenn.