Hvernig getur svona gerst?

Leikvöllurinn þar sem maðurinn rændi Chloe í gær
Leikvöllurinn þar sem maðurinn rændi Chloe í gær AFP

Níutíu mínútur liðu frá því að maðurinn þreif Chloe níu ára þar sem hún var að leika sér á leikvelli við vin sinn undir vökulu auga móður sinnar, dró hana inn í bíl sinn og ók á brott, þar til nakið lík hennar fannst í skógi þar skammt frá. Chloe hafði verið nauðgað og hún kyrkt. 

Pólskur maður hefur játað að hafa nauðgað og myrt níu ára gamla stúlku, Chloe, í gær. Franska þjóðin er í áfalli yfir málinu enda skelfilegt. Saksóknari í Calais hefur greint fjölmiðlum frá atvikum málsins en í fyrstu var talað um að maðurinn hefði rænt henni úr bíl móður sinnar. Lýsingin er skelfileg, hvernig Chloe var rænt, nauðgað og myrt á níutíu mínútum.

Morðinginn á langan sakaferil að baki og var bannað að stíga fæti sínum á franska jörð. Hann var handtekinn í gærkvöldi skammt frá skóginum þar sem nakið lík litlu stúlkunnar fannst. Hann hefur nú játað að hafa rænt henni, nauðgað og kyrkt.

Chloe var að leika við vin á leikvelli í gær þegar maður kom aðvífandi, greip hana og neyddi hana inn í rauðan bíl, segir í yfirlýsingu frá saksóknara.

Móðir hennar, sem var með henni ásamt tveimur systkinum Chloe, veinaði en maðurinn lét það ekki stöðva sig og þvingaði Chloe inn í bíl sinn að sögn vitna sem sögðu hann vera sköllóttan og með sólgleraugu.

Lögregla var strax látin vita, eða klukkan 15:30 og leit hófst strax. Það var síðan leitarflokkur sem fann lík stúlkunnar klukkan 17. 

Á blaðamannafundi áðan sagði saksóknari, Jean-Pierre Valensi, að réttarmeinarannsókn hafi leitt í ljós að hún hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi og kyrkt.

Þar skammt frá fann lögregla rauða bifreið á pólskum númerum og ökumaðurinn, dauðadrukkinn, var handtekinn ekki langt frá.

Í mars í fyrra var manninum vísað úr landi í Frakklandi og honum meinað snúa aftur til landsins eftir að hafa verið látinn laus úr fangelsi fyrir rán. Hann var framseldur til Póllands eftir að evrópsk handtökuskipun var gefin út á hendur honum, segir Valensi.

Hann segir að maðurinn hafi snúið aftur til Frakklands í gærmorgun og ætlað sér að fara til Englands þar sem systir hans býr. 

Forsætisráðherra Frakklands, Manuel Valls, krefst þess að upplýst verði frekar um sögu mannsins og segir að fjölskylda stúlkunnar og samfélagið í heild sé lamað vegna morðsins.

„Það er í höndum réttarkerfisins að hefja rannsóknina og við skuldum fjölskyldunni að hún fái að heyra sannleikann,“ segir Valls.

Íbúar í Calais eru lamaðir af sorg og er flaggað um alla borg í hálfa stöng. „Þetta er skelfilegt,“ segir tveggja barna móðir sem AFP fréttastofan ræddi við fyrir utan skóla Chloe í dag. Þar hefur verið komið upp áfallamiðstöð fyrir börn, starfsfólk og foreldra.

„Sonur minn þekkti hana. Hann svaf ekkert í nótt og hann veit að hann mun aldrei hitta hana aftur. Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hvað foreldrar hennar eru að ganga í gegn um,“ segir hún.

Le Parisien

by

AFP
Jean-Pierre Valensi saksóknari ræddi við fjölmiðla í dag.
Jean-Pierre Valensi saksóknari ræddi við fjölmiðla í dag. AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert