„Af Rússlandi stafar ógn“

AFP

Yfirmaður bandaríska hersins í Evrópu segir gríðarlega ógn stafa af Rússum og að aðildarríki Nato verði að snúa bökum saman gegn ógninni. „Þetta er ekki vangavelta, það er til staðar raunveruleg ógn,“ segir Frederick Ben Hodges í samtali við The Telegraph í dag.

Vísaði hann meðal annars til ummæla sendiherra Rússlands í Danmörku þar sem sendiherran gaf það í skyn að ef eldflaugavarnakerfi Nato myndi rísa í Danmörku, þá hefði það afleiðingar fyrir landið. 

„Við höfum rússneskan sendiherra í Danmörku sem hótar því að landið verði skotmark kjarnorkuflauga ef ekki verður fallist á kröfur Rússa. Þegar við sjáum svo hvernig rússneskar herflugvélar fljúga nálægt farþegaþotum í alþjóðlegu loftrými þá er það ekki til að bæta ástandið,“ segir Hodges.

„Besta tryggingin fyrir öryggi er að aðildarríki Nato standi þétt saman og sýni styrk sinn. Ég er ekki viss um að það muni koma til hernaðarátaka en við verðum að sýna hernaðarstyrk okkar til að viðræður nái skjótum árangri,“ bætir Hodges við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert