Óttast er að um sjö hundruð flóttamenn hafi farist í Miðjarðarhafinu úti fyrir strönd Líbíu í nótt en fólkið var á leiðinni til Evrópu á fiskiskipi sem sökk. Þetta kemur fram í frétt AFP og haft eftir talsmanni Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Þar segir að einungis 28 manns hafi bjargast svo vitað sé en þeir hafi greint frá því að rúmlega 700 hafi verið um borð.
Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að miklar björgunaraðgerðir standi nú yfir á svæðinu þar sem fiskiskipið fórst. Tuttugu björgunarskip og þrjár þyrlur taka þátt í aðgerðunum. Einkum frá Ítalíu og Möltu. Talið er að skipið hafi sokkið í kjölfar þess að fólkið hópaðist við aðra hlið skipsins til þess að reyna að vekja athygli flutningaskips á sér. Við það hafi skipið tekið að hallast og sokkið að lokum.