Stjórnvöld í Póllandi hafa kallað sendiherra Bandaríkjanna til fundar og farið fram á afsökunarbeiðni vegna ummæla æðsta yfirmanns alríkislögreglunnar FBI, James Comey, en samkvæmt pólska utanríkisráðuneytinu ýjaði Comey að því í grein í Washington Post að nasistar hefðu átt samverkamenn í Póllandi.
Í kjölfar fundarins sagði sendiherrann, Stephen Mull, að hann hefði komið því skýrt á framfæri að Bandaríkin teldu að nasistar væru einir ábyrgir fyrir Helförinni.
Sex milljónir pólskra ríkisborgara voru myrtir af nasistum í seinni heimstyrjöldinni, helmingur þeirra gyðingar.
Í greininni í Washington Post, sem miðaði að því að auka meðvitund um Helförina, skrifaði Comey m.a.: „Í sínum huga gerðu morðingjarnir, og samverkamenn þeirra í Þýskalandi og Póllandi og Ungverjalandi, og á mörgum, mörgum öðrum stöðum, ekkert illt. Þeir sannfærðu sig um að þetta væri hið rétta, það sem þeir þyrftu að gera.“
Ummælunum var harðlega mótmælt í Póllandi og sagði forsetinn, Bronislaw Komorowski, að þau væru móðgun við þúsundir Pólverja sem hefðu veitt gyðingum aðstoð.
Einn dálkahöfunda Washington Post gagnrýndi grein Comey í gær.