19 ára piltur frá Mandal í Noregi hefur verið handtekinn, grunaður um að hafa skotið samnemanda sinn til bana áður en pilturinn yfirgaf vettvang klæddur í herbúning.
Verjandi piltsins segir að hann hafi viðurkennt verknaðinn og að honum líði hræðilega. „Skjólstæðingur minn gerir sér grein fyrir því sem hann hefur gert og hann vildi óska þess geta skipst á hlutverkum við fórnarlambið, að skjólstæðingur minn væri sá látni,“ segir verjandinn í samtali við Dagbladet.
Málið skekur nú samfélagið í Mandal sem er ekki stór bær. Lögreglan staðfestir að piltarnir tveir hafi umgengist sömu vinahópana.
Eftir að pilturinn skaut hinn piltinn til bana hljóp hann út úr íbúðinni klæddur í herbúning. Þar reyndi hann að ræna bifreið og þegar það tókst ekki rændi hann annarri. Hann ók á brott og ætlaði að stinga lögregluna af, sem var þá komin á sporið. Um 10 km frá vettvangi fannst bíllinn og hafði drengurinn þá gengið inn á bar í nágrenninu og rænt vatnsflösku, klæddur í skothelt vesti og með leikfangabyssu sem líktist raunverulegri hríðskotabyssu.
Hann er nú í yfirheyrslum og á morgun verður krafist gæsluvarðhalds yfir honum að sögn lögreglu.