Vilja leyfa berbrjósta sólböð

Konur frá Venice Beach hafa áður gagnrýnt að mega ekki …
Konur frá Venice Beach hafa áður gagnrýnt að mega ekki vera berbrjósta og árið 2009 gengu þær fylktu liði um götur borgarinnar og kröfðust jafnréttis á við karlmenn. AFP

Bæjarráð Venice Beach í Kaliforníu í Bandaríkjunum samþykkti í gær að gera reglur um sólböð á ströndum bæjarins frjálslyndari með því að leyfa konum að njóta sólarinnar berbrjósta. Segir í bókun ráðsins að með þessu sé verið að fylgja í fótspor frjálslyndra Evrópuþjóða þar sem slíkt háttalag sé mjög algengt.

Venice Beach er þekkt fyrir frjálslynda stemmingu og meðfram ströndinni er ekki óalgengt að rekast á götulistamenn, hjólabrettaiðkendur, fólk að reykja kannabis og talsvert af ferðamönnum.

Ekki er þó björninn unninn strax, því nú þarf borgarráð Los Angeles að samþykkja þessa breytingu. Venice Beach er hluti af borginni og í Los Angeles er ólöglegt fyrir konur að vera berbrjósta á ströndinni.

Venice Beach er kennt við Feneyjar og í bókun bæjarráðsins er bent á að bærinn sé stofnaður á gildum evrópskar menningar þar sem berbrjósta sólbað þyki ekkert tiltökumál. Þá segir að konur og karlmenn eigi að hafa sama rétt til að njóta sólarinnar berbrjósta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert