Nú er talið að rúmlega 1.200 manns séu látnir eftir skjálftann sem reið yfir Nepal í morgun. Mannskætt snjóflóð féll í grunnbúðum Everest og eru að minnsta kosti tíu látnir. Vilborg Arna Gissurardóttir, Ingólfur Axelsson og fjögur íslensk ungmenn á svæðinu eru óhult.
Vitað er að 1.170 manns létu lífið í Nepal. Fjöldi fólks lét lífið í Indlandi og Kína vegna skjálftans. Björgunaraðgerðir standa enn yfir og gæti tala látinna átt eftir að hækka verulega. Loforð um aðstoð hafa borist frá mörgum löndum heims.
Gríðarlega mikil eyðilegging er í höfuðborginni Katmandú og var turninn Dharahara meðal bygginga sem hrundu í skjálftanum. Turninn var níu hæðir og byggður á nítjándu öld.
„Það var erfitt að anda en ég gekk hægt í gegnum brakið. Einhver togaði mig út. Ég veit ekki hvar vinir mínir eru,“ sagði Dharmu Subedi, 36 ára, sem stóð fyrir utan turninn þegar hann hrundi. Rætt var við hann þar sem hann lá í sjúkrarúmi.
Kari Cuelenaere, starfsmaður hollenska sendiráðsins í Nepal, stóð við sundlaug þegar skjálftinn var og segir hún að vatnið hafi allt farið upp úr lauginni þegar skjálftinn varð. „Þetta var hræðilegt, allt í einu fór vatnið upp úr lauginni og á þá sem stóðu hjá henni, börnin öskruðu,“ segir hún í samtali við AFP-fréttaveituna.
Fjöldi eftirskjálfta hefur mælst eftir stærsta skjálftann.