„Ég hélt að ég væri látinn“

Sex þyrlur lentu í grunnbúðum Everest í morgun.
Sex þyrlur lentu í grunnbúðum Everest í morgun. AFP

Rúmlega 2.000 manns eru látnir eftir jarðskjálftann sem varð í Nepal fyrir rúmum sólarhring. 1.953 létu lífið í Nepal og 53 á Indlandi. Þá greina kínverskir fréttamiðlar frá því að 17 manns hafi látið lífið í landinu.

Björgunarhópar streyma nú til landsins til aðstoða þá sem slösuðust og misstu heimili sín vegna skjálftans. Samgöngur eru víða úr skorðum og því mun taka tíma að komast til allra staða. Starfsmaður Rauða Krossins segir ástandið slæmt. Sjúkrahús voru rýmd vegna skjálftans og er hlúð að sjúklingum utandyra.

Fjölmargir hafa misst heimili sínu og sváfu þúsundir utandyra í nótt af ótta við að dvelja innandyra yrðu fleiri eftirskjálftar.

Gátu lent þyrlum í grunnbúðunum

Þyrlur gátu ekki lent í grunnbúðum Everest í gær vegna veðurs og hófust því handa við að flytja slasaða í burtu í morgun þegar færðin var betri. Að minnsta kosti sautján létu lífið í búðunum eftir að snjóflóð féll á þær í kjölfar skjálftans. Sex þyrlur lentu í búðunum í morgun.

„Ég hljóp og það flatti mig út. Ég reyndi að standa upp og það flatti mig á ný,“ sagði George Foulsham, klifrari í grunnbúðunum, í samtali við blaðamann AFP. „Ég gat ekki andað, ég hélt að ég væri látinn. Þegar ég loksins stóð upp, trúi ég ekki að flóðið hefði farið framhjá mér og ég var nánast ómeiddur.“

61 slasaðist í grunnbúðunum. Þeir sem geta gengið niður af fjallinu munu gera það, aðrir verða fluttir burt með þyrlu.

Farið verður með reipi og annan búnað til þeirra sem fastir eru fyrir ofan Khumbu-ísfallið en flóðið féll á milli þess og grunnbúðanna. Leiðin um ísfallið er því ófær sem stendur.

Björgunarmenn hlúa að slösuðum sjerpa í grunnbúðunum.
Björgunarmenn hlúa að slösuðum sjerpa í grunnbúðunum. AFP
61 slasaðist í grunnbúðunum. Þeir sem geta gengið niður af …
61 slasaðist í grunnbúðunum. Þeir sem geta gengið niður af fjallinu munu gera það, aðrir verða fluttir burt með þyrlu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert