Vopnahléið aðeins að forminu til

Úkraínskur hermaður á víglínunni.
Úkraínskur hermaður á víglínunni. SERGEI SUPINSKY

Úkraínskur hermaður lést og sjö særðust í sprengjuárás í átökum við uppreisnarmenn í austurhluta landsins.

Virðist því sem að vopnahlé uppreisnarmanna, hliðhollum Rússum, og Úkraínu sé aðeins að forminu til og segja eftirlitsmenn öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (OSCE) sprengjur dynja daglega á víglínunni.

Talsmaður úkraínska hersins, Oleksandr Motuzyanyk, sakaði rússneska uppreisnarmenn um að bæta í árásir sínar á fundi með fjölmiðlum í dag. Á fundinum tilkynnti hann um dauðsfall úkraínska hermannsins en yfir 6 þúsund manns hafa látist á því ári sem deilurnar hafa staðið yfir.

„Brotum uppreisnarmanna á vopnahléinu hefur fjölgað á síðastliðnum sólarhring,“ sagði hann og sakaði Motuzyanyk uppreisnarmenn um að nota Grad-sprengjuvörpur og önnur þungavopn sem eru bönnuð samkvæmt skilmálum vopnahlésins.

OSCE sagði hinn 20. apríl að hluti þungavopna aðskilnaðarsinna hafi verið flutt á milli staða en aðskilnaðarsinnar í Donetsk drógu þungavopn sín frá víglínum á seinni hluta síðasta árs í samræmi við friðarsamkomulag milli úkraínskra stjórnvalda og aðskilnaðarsinna.

Stofnunin segir leiðtoga uppreisnarmanna hafa gefið þá skýringu að vopnin hafi verið færð vegna fyrirhugaðrar hersýningar þann 9.maí en hátíðin markar 70 ára afmæli sigurs síðari heimsstyrjaldarinnar.

Hershöfðingjar Úkraínuhers óttast sumir hverjir að með hækkandi sólu muni aukin spenna færast í átökin og búast þeir við auknum átökum í kjölfar 70 ára afmælishátíðar Rússa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert