Í nóvember 1989 fann lögregluþjónninn Michael Buelna ungabarn sem skilið hafði verið eftir í ruslatunnu í Santa Ana í Bandaríkjunum. Í þessari viku, rúmum 25 árum síðar, hitti Buelna manninn sem hann bjargaði í fyrsta sinn síðan.
Buelna fann drenginn nánast líflausan í ruslinu eftir að nágrannar höfðu heyrt í gráti. Hann blés í hann lífi og fór svo með hann á næsta sjúkrahús. Þar var tekið við honum, en Buelna velti því alltaf fyrir sér hvað hafði orðið um barnið.
Í dag er barnið orðið að ungum manni, hinum 25 ára gamla Robin Barton. Mennirnir áttu fagnaðarfundi þegar þeir hittust í síðustu viku og fóru í viðtal við fréttastofuna CBS í Los Angeles. „Það er dásamlegt að hafa loksins hitt manninn sem fann mig fyrst,“ sagði Barton.
Tenging mannanna er þó enn dýpri, en Buelna og fjögur systkini hans voru einnig yfirgefin þegar þau voru ung börn. Hann eyddi tuttugu árum í að leita móður sinnar, og ætlar nú að hjálpa Barton að finna sína.
Barton hefur þegar ákveðið hvað hann mun segja við móður sína ef og þegar hann finnur hana. „Ég kenni henni ekki um og er ekki reiður eða bitur út í hana. Ég myndi vilja segja henni að ég fyrirgef henni,“ sagði hann.
Á sínum tíma fann lögregla móður Bartons og sat hún í nokkur ár í fangelsi. Barton segist hafa komist að því að hún heitir Sabrina Fabiola Diaz og er orðin 45 ára núna. Hann mun í sameiningu við Buelna reyna að hafa uppi á henni.
Líffræðilegur faðir Bartons, Marcos Meza, heyrði þó af hittingi hans og Buelna og steig fram. „Margir sögðu mér að hann liti út eins og ég, nefið, eyrun og allt saman,“ sagði hann.
Meza var sviptur forræði yfir syni sínum þegar hann fannst í ruslinu, og hélt að hann myndi aldrei hitta hann aftur. Hann vissi ekki einu sinni nafn sonar síns fyrr en hann sá fréttir um endurfundina. Meza á fimm dætur og stóra fjölskyldu, sem alla tíð hefur vitað af Barton en aldrei fundið hann. Þau hafa þó öll hist nú og ákveðið að reyna að byggja upp fjölskyldutengslin.