Aðhaldsstefnan hefur virkað. Störfum hefur fjölgað meira en í nokkru öðru ríki Evrópusambandsins, hagvöxtur er mikill og skuldir ríkisins eru að lækka, að vísu ofurhægt. Ungu fólki er heitið niðurgreiðslum á vöxtum vegna íbúðarkaupa, framlög verða aukin til skóla og sjúkrahúsa, ekki skortir loforðin. Tölulegur árangur ríkisstjórnar David Camerons í Bretlandi frá 2010 virðist við fyrstu sýn mjög góður en þrátt fyrir það sýna kannanir að fylgi stóru flokkanna tveggja, Íhaldsflokks Camerons og Verkamannaflokks Eds Milibands, er nokkurn veginn jafnt, rúmri viku fyrir kjördag 7. maí.
Og væntanlegur stórsigur Skoska þjóðarflokksins, SNP, mun að líkindum valda því að eins og 2010 fær hvorugur stóru flokkanna hreinan meirihluta á þinginu í London. En yfir 30% Skota eru þó enn óákveðin.
Hvers vegna hefur Cameron ekki náð vopnum sínum? Ein ástæðan er að Miliband hefur reynst öflugri leiðtogi í kosningabaráttunni en nokkurn óraði fyrir. Hrakspárnar um „skrítna manninn“, vinstri-róttækling sem bara geti hugsað um pólitík, hafa ekki ræst. Og Cameron getur verið mistækur, eins þegar hann misminnti nýlega í viðtali hvaða knattspyrnulið hann styddi. Leiðtogar eins og Cameron, sem er menntaður í Eton og Oxford og með kóngablóð í æðum (afkomandi Vilhjálms fjórða), reyna ákaft að sýna kjósendum að þeir séu ósköp venjulegir menn. Þeir geta ekki leyft sér svona mistök hjá knattspyrnuóðri þjóð.
Og í tveim málum hefur Íhaldsflokkurinn veika stöðu: hann hét því að draga úr straumi innflytjenda til landsins en aldrei hafa fleiri komið en í fyrra, nærri 300 þúsund manns. Þeir gegna lykilhlutverki í mörgum atvinnugreinum og eiga sinn þátt í auknum hagvexti. En ljóst er að stundum þrýsta þeir launum niður og gera erfiðara fyrir innfædda láglaunamenn að fá vinnu. Hitt málið er afstaðan til Evrópusambandsins. Flokkurinn er einfaldlega klofinn í því máli en lofar þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild.
Opinbera heilbrigðiskerfið, NHS, er mikilvægasta kosningamálið, það kemur fram í könnunum. Miliband hefur með góðum árangri tekist að fá marga til að trúa því að íhaldsmenn ætli að einkavæða kerfið þótt ljóst sé að stefna flokkanna í þessu máli sé nánast sú sama: Óbreytt kerfi. Yfirboð virðast ekki duga, Cameron vill veita átta milljörðum punda aukalega til NHS, Miliband aðeins 2,5 milljörðum en mun fleiri kjósendur treysta samt Verkamannaflokknum í þessum málum.
Varpað er fram margvíslegum skýringum á örvæntingarbaráttu íhaldsmanna, sumir segja leiðtogann hafa verið of daufan, eldmóðinn skorti. Hann var þó í miklum hug á fundi í vikunni. „Ef fólk segir að við leggjum of mikla áherslu á sterkan og stöðugan efnahag, að tryggja framtíð okkar, játa ég mig sekan. Ég veit hvað það er mikilvægt að þessi styrkur og stöðugleiki í efnahagnum sé til staðar,“ sagði Cameron. Og síðar sagði hann: „Ef þið viljið pólitíska spennu, farið til Grikklands. Ef þið viljið glys, farið til Hollywood!“
Aðrir benda á að kosningaloforðum sé ekki fylgt vel eftir. Þannig hafi íhaldsmenn lofað að auðvelda milljónum manna sem leigja húsnæði af hinu opinbera að kaupa, loforð sem falli mörgum vel í geð. En síðan sé eins og þessi stefna hafi gleymst, stöðugt sé reynt að finna nýja beitu í atkvæðaveiðunum.
Íhaldsmenn fengu síðast 302 sæti af 650 alls, Verkamannaflokkurinn hreppti 256. Sennilega þarf aðeins 323 til að hafa meirihluta, Sinn Fein-flokkurinn á Norður-Írlandi fær sennilega fimm sæti en mætir ekki á þingið fremur en venjulega. (Þannig andmælir flokkurinn tengslum N-Íra við Breta.) Kosningasérfræðingar reikna flestir með því að íhaldsmenn fái fleiri þingsæti en Verkamannaflokkurinn en ekki meirihluta.
Eigi Cameron að geta myndað aftur samsteypustjórn þarf hann því áfram stuðning Frjálslyndra demókrata undir forystu Nick Cleggs aðstoðarforsætisráðherra og ólíklegt að það dugi til. Flokki Cleggs, sem nú hefur 56 sæti, er spáð miklu tapi og svo gæti farið að þrjá flokka þurfi til að mynda meirihluta. Þótt Sjálfstæðisflokkur Bretlands, UKIP, sem hefur nú tvö þingsæti, fái að jafnaði 12-18% fylgi í könnunum er óvíst að sætum hans fjölgi. Einn hægriflokkur í viðbót, Sameinaði lýðræðisflokkurinn (UDP) á N-Írlandi, gæti fengið allt að níu þingsæti. Hann þykir líklegur til að styðja nýja stjórn Camerons.
Cameron og Miliband segjast báðir vissir um að merja meirihluta, hvað sem könnunum líður. En fréttamenn spyrja og spyrja aftur og öðru hverju reyna leiðtogarnir að halda öllum dyrum opnum, aðallega með því að bregða fyrir sig loðmullusvörum.
Nicola Sturgeon, nýr og kraftmikill leiðtogi SNP, og liðsmenn hennar unnu mikinn sigur þegar um 45% Skota studdu í fyrra tillögu flokksins um sjálfstæði. Flokkurinn er vinstra megin við Verkamannaflokkinn, vill leggja niður skólagjöld og vill að ávísanir á lyf verði ókeypis. Sturgeon er nýja stjarnan í breskri pólitík, þykir hafa skyggt mjög á leiðtoga stóru flokkanna og vinsældir hennar ná langt út fyrir raðir Skota.
Nú benda flestar kannanir til þess að SNP fái þorra 59 sætanna sem Skotar hafa í London og Verkamannaflokkurinn nánast þurrkist út í Skotlandi. Miliband útilokar þó ekki að mynduð verði minnihlutastjórn með stuðningi Sturgeon.
Íhaldsmenn segja að slík minnihlutastjórn Milibands með stuðningi SNP verði í gíslingu flokks sem vill kljúfa Skotland frá ríkinu, sundra því eftir meira en þriggja alda sögu. Fyrrverandi leiðtogi SNP, Alex Salmond, sagði nýlega á litlum fundi innvígðra, þegar fjallað var um fjárlög væntanlegrar Milibands-stjórnar að menn gætu verið áhyggjulausir, „ég ætla sjálfur að semja þau“. Ummælin láku út. Íhaldsflokkurinn hefur nú hengt upp myndir af Salmond þar sem lítill Miliband gægist upp úr brjóstvasanum!
Frambjóðendurnir eru af öllu tagi, sá yngsti, Solomon Curtis, er 18 ára og gefur kost á sér fyrir Verkamannaflokkinn í Wealden en Íhaldsflokkurinn hefur lengi „átt“ kjördæmið. Doris Olsen, 84 ára, býður sig fram fyrir Sjálfstæðisflokk aldraðra í Ilford North. Athyglisverð breyting var gerð 2011, framvegis hefur forsætisráðherra ekki lengur einkarétt á því að biðja drottninguna um að rjúfa þing. Það getur þingið einnig gert en til þess þarf þá tvo þriðju atkvæða. En lítill flokkur í samsteypustjórn gæti knúið fram slíka niðurstöðu með aðstoð stjórnarandstöðunnar ef hann teldi það henta sér.