Óttast að viðræðurnar verði bitbein

AFP

Viðræðum um fyrirhugaðan fríverslunarsamning á milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna lýkur ekki fyrir næstu áramót eins og vonast hafði verið til. Þetta staðfesti aðalsamningamaður sambandsins, Ignacio Garcia Bercero, á blaðamannafundi í Berlín, höfuðborg Þýskalands, í gær.

Fram kemur á fréttavefnum Euobserver.com að samninganefndunum hafi síðast verið fyrirskipað að ljúka viðræðum í desember á þessu ári. Forystumenn Evrópusambandsins vilji ógjarnan að viðræðurnar verði að bitbeini í kosningabaráttunni á næsta ári vegna forsetakosninganna í nóvember 2016. Hætta sé á að líkurnar minnki á að mögulegur samningur verði staðfestur af Bandaríkjaþingi í miðri kosningabaráttu.

Bercero sagði þannig ljóst að árið 2015 dygði ekki til þess að ljúka viðræðunum. Viðræður munu því ná fram á næsta ár. Hvenær þeim lýkur er óvíst en tímamörkin vegna þeirra hafa áður verið framlengd. Viðræðurnar hófust árið 2013 og átti upphaflega að ljúka þeim árið 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert