Skothvellir tóku við af Amazing Grace

Áströlsk stjórnvöld hafa kallað sendiherra sinn í Indónesíu heim eftir að tveir Ástralir voru tekir af lífi þar í landi í gær fyrir eiturlyfjasmygl ásamt sex öðrum. 

Andrew Chan og Myuran Sukumaran voru meðal átta manna frá nokkrum löndum sem skotnir voru til bana af aftökusveit á fangaeyjunni Nusakambangan síðdegis í gær. 

Brasilíska ríkisstjórnin hefur einnig lýst yfir mikilli sorg yfir því að brasilískur ríkisborgari, Rodrigo Gularte, hafi verið tekinn af lífi.  

Taka átti af lífi konu frá Filippseyjum, Mary Jane Fiesta Veloso, en hætt var við aftökuna á síðustu stundu eftir að ríkisstjórn Filippseyja biðlaði til stjórnvalda í Indónesíu þar sem kona sem Veloso hafi sakað um að hafa komið eiturlyfjum fyrir í farangri sínum, gaf sig fram.

Þegar mennirnir átta gengu fram fyrir aftökusveitina í gær sungu þeir saman trúarlega söngva, að sögn vitna og tóku ættingjar og vinir undir sönginn fyrir utan múra fangelsisins.

Fjórir þeirra koma frá Afríku auk þess sem einn Indónesi var meðal þeirra sem voru drepnir í gær. Allir voru þeir dæmdir til dauða fyrir brot á fíkniefnalöggjöf Indónesíu.

Fangarnir neituðu allir að láta binda fyrir augu sín og sungu saman lög eins og Amazing Grace háum rómi þar til raddir þeirra hljóðnuðu og hvinur frá byssukúlunum tók við.

Eiginmaður prestsins, Christie Buckingham, en hún veitti öðrum Ástralanum síðustu blessunina, segir að Buckinham hafi sagt að mennirnir hafi allir sýnt mikinn styrk allt til loka.

„Hún sagði mér að þeir hafi allir átta gengið út á vígvöllinn (killing field) syngjandi lofsöngva,“ segir Rob Buckingham í viðtali við 3AW útvarpsstöðina.

Í bænum Cilacap, sem er síðasti áfangastaðurinn áður en farið er í fangelsið þar sem þeir voru teknir af lífi, komu nokkrir syrgjendur saman, kveiktu á kertum og sungu Amazing Grace líkt og hinir dauðadæmdu. 

AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert