Spennan magnast fyrir sögulegan bardaga hnefaleikakappanna Floyd Mayweather og Manny Pacquiao í Las Vegas á laugardag. Eflaust hafa margir veðjað á úrslitin, en fáir eiga eins mikið undir og rappmógúllinn Marion „Suge“ Knight, sem dúsar í fangelsi.
Suge situr í gæsluvarðhaldi eftir „ákeyrslu“ fyrr á árinu, þar sem einn lést og annar særðist alvarlega. Hann hefur verið ákærður fyrir morð og morðtilraun, en segist saklaus.
Trygging Suge var ákvörðuð 10 milljónir dollara, en þær virðist músíkmaðurinn ekki eiga til. Lögmaður hans sagði hins vegar í dag að Suge og Mayweather væru afar nánir vinir og að Suge vonaðist til þess að vinurinn myndi fjármagna trygginguna eftir bardagann.
Bardagans er beðið með mikilli eftirvæntingu. Mayweather er ósigraður í hringnum og hæst launaðasti íþróttamaður heims. Hann sagði í vikunni að hann gerði ráð fyrir að hafa 200 milljónir dollara upp úr bardaganum.