Kerry hvetur til stillingar

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd úr safni.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd úr safni. AFP

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fordæmir það sem hann kallar „móðursýkisleg viðbrögð“ við kjarnorkusamningi við Íran.

„Fólk þarf að horfa á staðreyndir og vísindin að baki þessu staðreyndur, sagði Kerry í viðtali við Channel 10 Television í Ísrael. Hann segir fullbúinn samning eiga að vera tilbúinn 30. júní. Með samningnum fái viðsemjendur Írans ótakmarkaðan aðgang að þeim stöðum sem Íran hyggst nota í kjarnorkuáætlun sinni.

„Það verða eftirlitsmenn þar á hverjum einasta degi. Þetta er ekki 10 ára samningur. Þessi samningur nær til eilífðarnóns. Þessu verður að fylgja eftirlit,“ sagði utanríkisráðherrann.

„Ég endurtek: við munum ekki skrifa undir samning sem ekki bindur endalok á tilraunir Írana til að koma sér upp kjarnorkuvopnum og er ekki til þess fallinn að slökkva áhyggjur bandarískra og alþjóðlegra sérfræðinga þess efnis að Íran muni koma sér upp kjarnorkuvopnum,“ sagði Kerry.

Á miðvikudaginn tilkynnti Mohammad Javad Zarif, utanríkisráðherra Írans að stjórnvöld í Tehran væru tilbúin að fallast á fullkomið gegnsæi í kjarnorkumálefnum landsins og vilja ganga frá endanlegum samningi sem fyrst.

Ef samningurinn nær að ganga í gegn að fullu mun það fela í sér mun minni kjarnorkuumsvif Írana og að þau umsvif sem eftir verða munu lúta því sem Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur lýst sem „öflugasta og ágengasta eftirlits- og gegnsæiskerfi í sögunni.“

Í staðinn hafa Bandaríkin og fimm aðrar stórþjóðir heitið því að aflétta tilteknum viðskiptaþvingunum sem hafa valdið íbúum Írans, 75 milljónum, miklum efnahagslegum örðuleikum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert