Bandarísk móðir hugðist kenna syni sínum lexíu á dögunum þegar hún hringdi í lögreglu og lét handtaka hann fyrir að haga sér illa. Chiquita Hill segist hafa viljað hræða son sinn, og bað lögreglumenn því að þykjast ætla að færa hann í fangelsi. „Ég vildi að hann myndi átta sig,“ sagði hún við lögreglu.
Hill segir son sinn hafa verið dónalegan við kennara í skólanum ásamt því að hafa ekki verið að sinna náminu. Kennarinn hafði haft samband við móðurina varðandi hegðun drengsins.
„Ég sat og reyndi að ákveða hvernig ég ætti að aga son minn, því fyrri aðferðir höfðu augljóslega ekki virkað, svo ég ákvað að hringja á lögregluna,“ sagði hún.
Hill tók myndir af lögregluþjónum færa grátandi son sinn í handjárn og setti þær inn á Facebook. Sumir notendur hafa líkt henni við Toya Graham, móðurina frá Baltimore sem lamdi son sinn þegar hann tók þátt í mótmælum þar í borg.
Hill segist skilja Graham vel. „Hún varð að gera það sem hún varð að gera. Ég sá í henni ást gagnvart barninu hennar og þetta er hennar eini sonur svo ég skil hana,“ sagði Hill.
Hill segir lögregluþjónana hafa sannfært hana um það að sonur hennar var aldrei í neinni hættu. Lögreglan tók þó fram að þó lögregluþjónar séu ávallt tilbúnir til að hjálpa öðrum, sé mikilvægt að hafa í huga að þeir séu mjög uppteknir.