Vill þjóðaratkvæði um evruna

AFP

Fyrrverandi forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, vill að þjóðaratkvæði verði haldið um veru landsins á evrusvæðinu. Þetta kemur fram í grein sem hann ritar í þýska dagblaðið Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag. Fjallað er um greinina á fréttavefnum Euobserver.com.

Fram kemur í greininni að stjórnvöld yrði í sterkari stöðu til þess að koma á nauðsynlegum efnahagsumbótum í kjölfar þjóðaratkvæðis þar sem meirihlutinn myndi kjósa með því að halda evrunni. Grikkland hefur staðið í samningaviðræðum undanfarnar vikur við alþjóðlega lánadrottna landsins, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og Evrópusambandið, um áframhaldandi neyðarlán en á móti er krafist umfangsmikilla efnahagsumbóta. Takist ekki að semja um skuldastöðu Grikkja gæti það leitt til þess að þeir færu í greiðsluþrot og yrðu í framhaldinu að yfirgefa evrusvæðið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Papandreou leggur til þjóðaratkvæði um evruna. Það gerði hann einnig síðla árs 2011 þegar hann var enn forsætisráðherra. Þá stóð ríkisstjórn hans að sama skapi í erfiðum viðræðum við alþjóðlega lánadrottna um skuldir Grikklands en ætlunin með útspilinu þá var talin vera sú að setja pressu á þá. Ekkert varð þó af þjóðaratkvæðinu en þess í stað lét Papandreou af ráðherraembætti og ný stjórn var mynduð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert