Audi-bílaumboð í Watford á Englandi neitar að greiða reikning sem hljóðar upp á ríflega 700 pund sem kona fékk eftir að hafa snætt á veitingastað í Lundúnum, en umboðið hafði boðist til að bjóða henni og einum gesti út að borða eftir að hafa valdið skemmdum á bifreið sem hún hafði keypt. Reikningurinn samsvarar rúmlega 140.000 krónum.
Hin 27 ára gamla Siobhan Yap ákvað af þessu tilefni að bjóða móður sinni út að borða á veitingastaðinn L'Atelier de Joël Robuchon í Covent Garden í London, en staðurinn hefur hlotið Michelin-stjörnu og þykir afar fínn.
Talsmenn umboðsins segja að reikningurinn sé allt of hár og hafa boðist til að greiða helminginn. Yap segir hins vegar að fyrirtækið hefði átt að taka það skýrt fram í upphafi hversu mikið hún mætti eyða á veitingastaðnum.
Yap keypti Audi-blæjubifreið af umboðinu en bifreiðin varð hins vegar fyrir tjóni á lóð umboðsins áður en Yap fékk bílinn. Umboðið gerði við bifreiðin, lét Yap hafa annan bíl til umráða á meðan viðgerð stóð yfir og samþykkti jafnframt að bjóða henni og einum gesti út að borða vegna þeirra óþæginda sem hún varð fyrir.
Mæðgurnar létu fara vel um sig á veitingastaðnum, en þar pöntuðu þær sér fjögur kampavínsglös, tvær vínflöskur, sex kokteila og líkjör. Þá fengu þær nokkra smárétti sem kostuðu samtals um 135 pund.
Yap segir í samtali við þáttinn JVS á BBC Three, að Audi ætti að greiða allan kostnaðinn þar sem hún hafi þurft að senda bifreiðina í frekari viðgerðir og að reikningurinn sé í hlutfalli við það sem hún hafi þurft að ganga í gegnum.
„Þeirra vegna hef ég þurft að þola mikið og þetta var virkilega fínn veitingastaður,“ sagði Yap. „Þeir hefðu átt að setja þak á upphæðina.“
Talsmaður Audi segir að reikningurinn hafi verið of hár fyrir tvo gesti, en að fyrirtækið hafi samþykkt að greiða helminginn.
„Við teljum að það sé sanngjarn upphæð miðað við aðstæður, og við stöndum við þá ákvörðun,“ sagði hann.
Sérfræðingur í góðum siðvenjum, sem BBC ræddi við, segir að umboðið hefði átt að tilgreina ákveðna upphæð í upphafi. Þar af leiðandi ætti að það að taka á sig allan kostnaðinn.
Hann bætti við að „kannski ættir þú ekki að drekka svona mikið ef einhver annar er að borga.“