Framtíð Milibands og Cleggs óráðin

AFP

Mjög miklar líkur eru á að David Cameron verði áfram forsætisráðherra því samkvæmt spá BBC fær Íhaldsflokkurinn 325 þingmenn kjörna af þeim 650 sem sitja í neðri málstofu breska þingsins. Innan Verkamannaflokksins er þegar byrjað að ræða afsögn formannsins, Ed Miliband,og það sama á við um formann Frjálslyndra demókrata, Nick Clegg.

Þegar búið er að telja atkvæði um kosningu 545 þingmanna af þeim 650 sem sitja í neðri málstofunni hefur Íhaldsflokkurinn fengið 250 kjörna og unnið 19 þingsæti. Verkamannaflokkurinn hefur fengið 212 menn kjörna og tapað 28 þingsætum. Skoski þjóðarflokkurinn er með 55 þingmenn og hefur bætt við sig 49 þingsætum. Frjálslyndir demókratar eru með 6 þingmenn og hafa tapað 41 sæti. Sambandssinnar á Norður-Írlandi eru með 8 þingmenn sem er það sama og áður og aðrir flokkar fá 14 þingmenn sem er aukning um tvo frá kosningunum fyrir fimm árum.

Á BBC er haft eftir Cameron að það væri of snemmt að segja hver niðurstaðan yrði en hann vonaðist til þess að mynda næstu ríkisstjórn.

Skoski þjóðarflokkurinn bókstaflega þurrkaði Verkamannaflokkinn út í Skotlandi og Verkamannaflokknum hefur einnig gengið illa í Wales og Englandi.

Samkvæmt spá BBC, miðað við þau atkvæði sem talin hafa verið er að Íhaldsflokkurinn fái 325 þingsæti sem nægir til þess að mynda eins flokks ríkisstjórn, Verkamannaflokkurinn 232 sæti, Frjálslyndir demókratar 12 sæti, Skoski þjóðarflokkurinn 56, Plaid Cymru (Flokkur Wales) 3 sæti, Breski sjálfstæðisflokkurinn (UKIP) 2 sæti, Græningjar 1 sæti og aðrir flokkar 19 þingsæti.

Nick Clegg lét þau orð falla þegar ljóst var að hann héldi þingsæti sínu í Sheffield Hallam að þetta hafi verið grimmileg nótt og hans hafi verið refsað. Hann ætlar að gefa yfirlýsingu um framtíð sína í stjórnmálum síðar.

George Galloway mun hætta á þingi því hann tapaði þingsæti sínu í Bradford West. Eins hafa þeir Jim Murphy, leiðtogi Verkamannaflokksins í Skotlandi og skuggaráðherrann Douglas Alexander einnig. Það er SNP sem hafði betur í baráttunni við þá.

UKIP hefur fengið töluvert af atkvæðum í Norður-Englandi og Douglas Carswell hélt sæti sínu í Clacton en Mark Reckless tapaði sínu. Eins er óljóst hvort leiðtogi flokksins Nigel Farage muni fara með sigur af hólmi í South Thanet.

Samkvæmt Guardian er innan Verkamannaflokksins byrjað að tala um Harriet Harman sem næsta formann flokksins. Þingmenn Verkamannaflokksins eru byrjaðir að tala um það opinberlega að pólitísk framtíð Milibands sé óljós og fyrrverandi íþróttamálaráðherra og fyrrverandi þingmaður flokksins, Gerry Sutcliffe, segir í samtali við Guardian að Miliband þurfi að íhuga stöðu sína og það sé orðið tímabært að einhver annar taki við keflinu. Það eina sem Miliband hefur sjálfur sagt er að honum þyki þetta ákaflega leitt þegar hann er spurður út í niðurstöðu kosninganna.

David Cameron
David Cameron AFP
Formaður Verkamannaflokksins Ed Miliband,
Formaður Verkamannaflokksins Ed Miliband, AFP
Nick Clegg formaður Frjálslyndra demókrata
Nick Clegg formaður Frjálslyndra demókrata AFP
Forsíður bresku dagblaðanna
Forsíður bresku dagblaðanna AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka