Þrír úkraínskir hermenn hafa fallið í átökum við aðskilnaðarsinna í Austur-Úkraínu undanfarinn sólarhring þrátt fyrir vopnahléð sem hefur verið í gildi síðan í febrúar. Fjórði hermaðurinn særðist í átökunum. Þetta fullyrða stjórnvöld í Kænugarði.
Haft er eftir Andriy Lysenko, talsmanni úkraínskra stjórnvalda, í frétt AFP að aðskilnaðarsinnar hafi gert stórskotaliðsárás á úkraínskar hersveitir. Úkraínskar hersveitir hafi svarað árásinni. Fram kemur í fréttinni að mannfall hafi færst í aukana síðustu daga eftir að frekar rólegt hafi verið vikurnar þar á undan.
Sameinuðu þjóðirnar telja að átökin í Úkraínu hafi kostað 6.200 manns lífið síðan í apríl á síðasta ári þegar úkraínsk stjórnvöld hófu hernaðaraðgerðir gegn aðskilnaðarsinnum í Austur-Úkraínu.