Grikkjum tókst í dag að sneiða hjá greiðslufalli og standa í skilum á afborgun af 750 milljóna evra láni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en skuldavandi Grikklands er hvergi nærri leystur og næsti eindagi er skammt undan. Orðið „Grexit“ heyrist æ oftar og er þar átt við útgöngu Grikkja úr evrusamstarfinu. Sömuleiðis heyrist æ oftar í áætlunum þeirra helstu ríkja ESB og þeirra stofnana, sem fara með málið, að gengið sé út frá ýmsum möguleikum, þar á meðal útgöngu, þótt opinberlega sé því neitað.
„Mín ríkisstjórn er bara með eina áætlun, að Grikkir verði áfram í evrunni, og við gerum nú allt, sem á okkar valdi stendur, til að styðja Grikkland til þess,“ segir Michael Roth, Evrópumálaráðherra Þýskalands, sem heimsótti Ísland í vikunni. „En þetta er mjög erfið staða, klukkan tifar og við höfum allt of lengi verið upptekin af afstrakt umræðum í stað áþreifanlegra niðurstaðna. Nú er það undir grísku ríkisstjórnin komið hvort hún sé tilbúin og fær um að leggja fram áþreifanlegar tillögur, sem sýna fram á að ráðist verði í nauðsynlegar umbætur og menn haldi sig við að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum í þágu hagsmuna viðskiptalífsins. Ég hef líka mikinn skilning á því að gríska stjórnin vilji bæta hina félagslegu stöðu í landinu og það vill vel að merkja enginn í ESB banna þeim.“
Roth hafnar því að kröfurnar, sem gerðar séu til Grikkja um aðhald og sparnað, útiloki að hagvöxtur verði í landinu í bráð.
„Stefna Evrópusambandsins snýst ekki bara um sparnað,“ segir hann. „Stefna okkar hvílir á þremur stoðum. Sú fyrsta er fjárfesting í hagvexti og störfum. ESB vill hjálpa í þeim efnum. Önnur stoðin er umbætur á kerfinu. Við þurfum í Grikklandi skattkerfi, sem virkar. Við þurfum nútímalegt stjórnkerfi. Við þurfum líka jákvætt fjárfestingarumhverfi í viðskiptalífinu. Þriðja stoðin er að taka á skuldavandanum og koma á jafnvægi í ríkisfjármálum. Það verður að gerast í þágu viðskiptalífsins og við viljum ekki að velferðarríkið verði eyðilagt með sparnaðarpólítik. Það vill enginn í Evrópusambandinu.“
Roth segir að grísku stjórninni hafi verið veitt mikið svigrúm. Samkomulag sé um markmið, en nú þurfi Grikkir að koma sér saman um leiðina í samkomulagi við framkvæmdastjórn ESB, seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyirssjóðinn.