Gagnrýnir innflytjendastefnu ESB

Yfir 1.800 manns hafa látið lífið það sem af er …
Yfir 1.800 manns hafa látið lífið það sem af er ári 2015 við það að reyna að komast til Evrópu yfir Miðjarðarhafið. AFP

Stefna evrópskra yfirvalda til að stemma stigu við ólöglegum innflytjendum sem koma með skipum yfir Miðjarðarhafið á síðustu tveimur áratugum hefur mistekist og búið til „smyglaramarkað“ segir í hollenskri rannsókn sem var birt á fimmtudaginn í síðustu viku.

„Á síðustu 25 árum höfum við séð Evrópulönd samræma stefnu sína þegar það kemur að innflytjendamálum og á sama tíma hafa þau hert á stefnu sinni,“ sagði Thomas Spijkerboer, sérfræðingur í réttindum innflytjenda, við AFP-fréttaveituna.

Spijkerboer, sem fór fyrir rannsókninni sem gerð var af Háskólanum í Amsterdam, segir að í stað þess að koma í veg fyrir ólöglega innflytjendur hafi stefnan skapað markað fyrir smyglara. 

Rannsóknin náði yfir innflytjendur sem létu lífið við tilraunir til þess að komast yfir til Evrópu yfir Miðjarðarhafið á árunum 1990 til 2013. „Á tímabilinu höfum við séð fjölda látinna við landamæri hækka stöðugt. Við teljum að þetta tvennt tengist,“ sagði hann.

Í stað þess að bregðast við er hert á stefnunni

Rannsóknin leiddi í ljós að smyglarar reyni nú að fara lengri og hættulegri leiðir yfir til Evrópu til þess að sneiða fram hjá strandgæslu Evrópulanda á Miðjarðarhafinu ásamt því að notaðir eru eldri bátar til þess að villa um fyrir yfirvöldum.

Yfir 1.800 manns hafa látið lífið það sem af er ári 2015 samkvæmt tölum Alþjóðlegrar stofnunar um innflytjendamál og árið því líklega það banvænsta í sögunni fyrir innflytjendur sem reyna að komast yfir til Evrópu.

Evrópusambandið hefur kynnt umdeilda áætlun vegna smygls á innflytjendum en áætlunin miðar að því að skemma og gera upptæka báta sem notaðir eru við smygl á fólki en bátarnir eru flestir staðsettir í Líbýu.

Mannréttindasamtök segja áætlun Evrópusambandsins einblína of mikið á hernaðarleg viðbrögð í stað þess að einblína á að finna lausn á vandamálinu og greiða leið innflytjenda yfir til Evrópu.

„Stefna evrópskra yfirvalda er þröngsýn,“ sagði Spijkerboer og bætti við að innflytjendur hverfi ekki með því að herða á stefnunni. „Tala látinna heldur áfram að hækka en ótrúlegt en satt þá bregðast evrópsk yfirvöld ekki við vandamálinu heldur herða þau enn meira á stefnu sinni,“ sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert