Björn réðst á konu í Rússlandi og gróf hana lifandi. Konan var úti að ganga með hundinn sinn er árásin átti sér stað, segir í rússneskum fjölmiðlum um málið.
Natalya Pasternak var að safna sprekum í skógi í Amur í Síberíu er hundurinn hennar fór að gelta. Björn var mættur á svæðið og réðst hann fyrst á hundinn en svo á konuna. Konan hlaut alvarlega áverka m.a. í kviðarhol á fætur og á höfuð.
Svo virðist sem björninn hafi ætlað að gæða sér á bráð sinni seinna því hann gróf konuna niður í skógarbotninn. Konan var sem betur fer ekki ein á ferð og hljóp vinur hennar til að sækja hjálp.
Lögreglan kom á vettvang og skaut björninn. Að því búnu fann hún konuna grafna í jörðina.
„Eruð þið búnir að drepa björninn?“ var það fyrsta sem konan spurði lögregluna að, segir í frétt Siberian Times um málið. Konan var flutt á gjörgæslu. Ástand hennar er sagt alvarlegt en stöðugt.